Skíða lengd Everest í Stafdal um helgina

Börn og unglingar í Skíðafélagi Stafdals (SKÍS) hyggjast um helgina reyna að safna sér í ferðasjóð vegna Andrésar Andarleikana og gera það með þeim allsérstæða hætti að hvert og eitt þeirra mun skíða sem nemur lengd hæsta fjalls veraldar.

Þar auðvitað um Everest fjall að ræða í Nepal hvers hæð fer langleiðina í níu kílómetra alls. Það merkir kringum níu til tíu ferðir frá hæsta toppi skíðasvæðisins í Stafdal niður að skíðaskálanum. Börn allt frá sex ára aldri og upp í sextán ára aldurinn hyggjast reyna sig við þá vegalengd og safna áheitum sem flestra.

Að sögn Tinnu Bjarkar Guðjónsdóttur, gjaldkera SKÍS, er skráningu ekki alveg lokið og því óljóst hversu margir ætla að taka þátt en allnokkur fjöldi, milli 20 og 30 krakkar, þegar komnir á blað. Hugmyndin var að byrja síðdegis á morgun en þar sem veðurspáin er miður góð er líklegra á þessu stigi að reynt verði við „Everest“ á laugardaginn kemur.

„Við ætlum okkur að gera okkur sérstaklega glaðan dag á laugardaginn enda er spáin þá góð. Krakkarnir reyna sig við vegalengdina og þar sem um breiðan aldurshóp er að ræða þá getur það tekið þau mislangan tíma að klára þessa 8900 metra tæpa. Allir geta heitið á krakkana og öll framlög fara í ferðasjóðinn okkar hjá SKÍS. En við ætlum reyndar að gera meira því við ætlum að skapa skemmtilega stemmningu með tónlist á svæðinu og þessi dagur er einnig hluti af stórafmælisveislu hennar Unnar Óskarsdóttur sem lengi hefur verið að þjálfa á skíðasvæðinu. Þetta verður vafalaust mjög skemmtilegt og við hvetjum alla til að koma og skemmta sér með okkur.“

Ísabella Guðmundsdóttir er ein þeirra yngstu sem reyna sig við „Everest“ í Stafdal á laugardaginn kemur þegar skíðafélagið safnar peningum í ferðasjóð. Mynd Pedromyndir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.