„Skemmtilegustu samkundur sem hægt er að komast í“

„Kvenfélagskonurnar á Reyðarfirði báðu okkur um að koma til sín og það gerðum við með glöðu geði,“ segir Fáskrúðsfirðingurinn Albert Eiríksson, en hann og Bergþór Pálsson voru gestir á fundi Kvenfélags Reyðarfjarðar fyrir stuttu.


„Við hittum reglulega allskonar hópa þar sem við tölum meðal annars um borðsiði og almenna kurteisi. Einnig förum við yfir það hvernig hægt er að gera lífið enn betra og segjum frá því hvað við gerum til að rækta okkar samband. Svo erum við með einhverjar skemmtisögur í bland og reynum bara að hafa gaman, syngjum jafnvel, förum í leiki og bara njótum lífsins,“ segir Albert.

Sælir í hjarta og maga eftir heimsóknina
Albert og Bergþór voru alsælir með heimsóknina á Reyðarfjörð og segja hópinn sem á móti þeim tók hrikalega skemmtilegan, en um fjörutíu konur eru starfandi í félaginu.

„Þetta var alveg ferlega skemmtilegt. Þær sögðu okkur frá félaginu og leystu okkur út með bók um sögu félagsins sem gefin var út á 100 ára afmæli þess fyrir tveimur árum. Ég er búinn að renna í gegnum bókina og hún er mjög áhugaverð, en það er gaman að sjá hvað verkefni félagsins breytast með samfélaginu þó svo að markmiðið sé alltaf það sama; að efla samfélagið og hjálpa eins og unnt er.“

Albert segir þá Bergþór hafa farið sæla heim, bæði í hjarta og maga. „Þetta eru þær skemmtilegustu samkundur sem hægt er að komast í og svo er alltaf svo voðalega gott með kaffinu. Allar kræsingarnar eru heimabakaðar af konum sem hafa bakað í áratugi og eru ótrúlega flinkar, það verður ekki betra. Svo var bara alveg magnað að upplifa þessa miklu samstöðu og gleði innan hópsins. Þetta var alveg yndisleg stund.“

Stoltur af því að vera utan að landi
Aðspurður hvort eitthvað hafi komið á óvart og hvað hafi staðið uppúr segir Albert: „Það kom mér á óvart hve meðalaldur innan félagsins var lágur og hve fjölmennt það í raun er. Það sem eftir situr er samstaða þessara mögnuðu kvenna, félagsskapurinn er svo sannarlega mannbætandi og mikilvægur hlekkur í samfélaginu.“

Albert segir að sér þyki alltaf jafn gott að koma út á land, enda er hann sjálfur frá Fáskrúðsfirði. „Það er svo gott að koma út á land og þegar ég las bókina fylltist ég stolti yfir því að vera sjálfur af landsbyggðinni. Þar er einhvern veginn aldrei neitt mál, fólk bara leysir málin hver sem þau eru, bara reddar því sem þarf að redda.“





Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.