Skemmtileg Jazzhátíð: Myndasyrpa frá lokatónleikunum

Jón Hilmar Kárason, framkvæmdastjóri Jazzhátíðar Egilsstaða á Austurlandi, segist trúa því að hátíðin í ár hafi verið skemmtileg fyrir þá sem hana sóttu. Aðsóknin hafi á móti verið undir væntingum.

 

jea_todmobile_0027_web.jpgHátíðin hófst á Seyðisfirði þar sem Jón Hilmar segir að gítarleikarinn Öystein Gjerde úr Fellabæ hafi komið mest á óvart.

„Hann sýndi að þarna fer efnilegur tónlistarmaður á ferð og gríðarlega efnilegur gítarleikari.  Síðasta númerið sem hann spilaði var stórglæsilegt og ekki margir gítarleikarar hér fyrir austan sem geta spilað svo vel á gítarinn.“

Í kjölfar hans fylgdu síðan Farvel ásamt Einari Braga og Ernu Hrönn en Jón segir Ernu Hrönn hafa sýnt að hún sé „frábær skemmtikraftur og æðisleg söngkona.“

Stefán Hilmarsson kom fram ásamt hljómsveit í Neskaupstað á tónleikum til heiðurs Stevie Wonder. „Stemningin var mögnuð og frábært að hlusta á þessa tónlist flutta af svo góðu bandi. Stefán sýndi enn og aftur að hann er sennilega okkar besti söngvari. Hugmyndina að Stevie Wonder tribute átti Þorlákur Ágústsson og þökkum við honum fyrir frábæra  hugmynd!“

Lokakvöldið var á Egilsstöðum þar sem fram komu tríó Matti Saarinen og Todmobile. Matti kenndi áður við Tónlistarskóla Fljótsdalshéraðs en kennir nú á Akureyri.
„Matti er frábær gítarleikari og flottur lagasmiður. Skemmtilegt prógramm og vonandi eigum við eftir að heyra meira frá þeim í framtíðinni.“

Todmobile sló síðan botninn í hátíðina. Jón Hilmar segir að nærvera þeirra hafi undirstrikað fjölbreytni hátíðarinnar.
„Þó svo að hátíðin heiti Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi þá rúmast öll skemmtileg tónlist á dagsskránni okkar. Við lentum nefnilega í því að þurfa að leiðrétta það að Todmobile ætluðu að spila jazztónlist. Þau spiluðu að sjálfsögðu sína tónlist sem er jú bland af jazzi, poppi, rokki, klassík og öllu hinu.“

Aðsóknin var samt undir væntingum og aðeins um fimmtíu manns sáu Todmobile í Valaskjálf. „
Hátíðin tókst vel að flestu leiti. Aðsóknin var þó alls ekki eins og við reiknuðum með þar sem við telfdum fram tónlistarmönnum sem allir hlusta á og allir þekkja en það er nú bara eins og það er.“

Það eyðileggur samt ekki hátíðina fyrir Jóni. „Við höfum fengið frábæra listamenn til okkar sem ekki hafa spilað annarsstaðar á landinu og við eigum að vera stolt af þessari merkilegu hátíð. Ég trúi því að hátíðin hafi alltaf verið skemmtileg fyrir þá sem hafa komið til okkar og upplifað einstaka tónleika í gegnum árin.“

jea_todmobile_0003_web.jpg jea_todmobile_0036_web.jpgjea_todmobile_0033_web.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.