Skammar forstjóra Landsvirkjunar

Vilhjálmur Snædal, bóndi og landeigandi á Skjöldólfsstöðum, sendir Friðriki Sophussyni, forstjóra Landsvirkjunar og fyrrum varaformanni Sjálfstæðisflokksins tóninn í opnu bréfi sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni. Ástæðan er aðgangsharka Landsvirkjunar gagnvart bændum og landeigendum á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Vilhjálmur fór upp í pontu og á landsfundi Sjálfstæðismanna og sendi Friðriki þaðan tóninn. Þeir áttu síðan í rimmu út í sal enda segist Vilhjálmur í upphafi bréfsins ekki getað þakkað Friðriki fyrir seinast. „Það hefði verið þér til sóma að fara frekar í pontu og skamma mig þaðan en koma út í sal með hávaða og látum.“

Vilhjálmur rekur síðan ástæður þess að hann sté í pontu á landsfundinum. „Sendiboðar Landsvirkjunar komu t.d. á heimili á Héraði og tóku upp úr tösku sinni samning um bætur vegna línu- og vegalagninga á viðkomandi jörð og buðu um eina milljón króna fyrir land og efni. Þegar bóndinn gerði athugasemdir við útreikninga Landsvirkjunar og þeir sáu að hann kunni á ýmsu skil, kipptu þeir blaðinu að sér og stungu í púss sitt og tóku upp annað og spurðu hvort honum litist betur á það. Þar var upphæðin fjórum til fimm milljónum hærri,“ skrifar Vilhjálmur og spyr hvort ekki hefði verið „smekklegra að koma í upphafi með vandað tilboð heldur en að reyna að plata þá sem fylgjast kannski ekki nógu vel með málum.“

Skjöldólfsstaðabóndinn gagnrýnir einnig aðferðafræðina sem notuð var við að meta verðmæti orkunnar til virkjunarinnar.
„Það var þannig gert að Stefán Pétursson, fjármálamógúll Landsvirkjunar, fór til verkfræðiskrifstofu föður síns og fékk þar það sem Landsvirkjun kallar „hlutlaust mat“. Með slíkum vinnubrögðum er okkur, þinglýstum eigendum réttinda á Fljótsdalshéraði sýnd fádæma fyrirlitning.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.