Sjaldan fleiri viðburðir en á níunda Tæknidegi fjölskyldunnar í Verkmenntaskólanum

Hvernig tilfinning ætli sé að vera skipstjóri? Hvað er dulkóðun? Hvernig eru smáhýsi byggð og hvernig er hægt að móta landslag í sandkassa?

Svör við ofangreindum spurningum og fjölda annarra fást á Tæknidegi fjölskyldunnar á morgun laugardag.

Þá heldur Verkmenntaskóli Austurlands, með hjálp og aðstoð frá fjölmörgum austfirskum aðilum, þennan dag tækni, vísinda og fræðslu hátíðlegan í níunda skiptið og að þessu sinni að vori til.

Vekur sífellt meiri athygli

Til marks um hve vel hefur tekist til hefur verið stígandi í gestafjölda nánast öll ár frá upphafi að sögn verkefnisstjórans Birgis Jónssonar og gestirnir koma víða að.

„Hér fjöldinn allur af forvitnilegum hlutum að sjá, skoða og upplifa eins og endranær en að þessu sinni er tvennt sem gestir gætu haft sérstaklega gaman af. Annars vegar verður hægt að prófa hér glænýjan siglingarhermi skólans og upplifa vel hvernig tilfinning það er að sitja í skipstjórastólnum á sjó. Öllum gefst færi á að prófa þann hermi sem við fengum nýlega. Hins vegar er gleðilegt að með okkur núna í fyrsta skipti í nokkur ár verður Vísindasmiðja Háskóla Íslands en þar verður ýmislegt forvitnilegt og skemmtilegt kynnt fyrir fólki.“

Linnulaus dagskrá á þremur stöðum

Birgir segir að viðburðafjöldinn á Tæknideginum nú verði í allra mesta lagi en þeir fara fram bæði í verk- og bóknámshúsum Verkmenntaskólans sjálfs en jafnframt mikil dagskrá í íþróttahúsi bæjarins. Ekki aðeins er skólinn sjálfur auk Háskóla Íslands að kynna eitt og annað spennandi heldur koma líka að deginum ýmis fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar að austan sem kynna sig og sína starfsemi.

Vísindasmiðjan mun bjóða upp á ýmsar óvæntar uppgötvanir og skemmtilegar tilraunir fyrir alla fjölskylduna s.s. teiknirólu, syngjandi skjál, þrautir, dulkóðun, hljóðtilraunir, teikniþjarkar og fjölmargt fleira. Gestir geta siglt um öll heimsins höf í fyrrnefndum siglingahermi okkar, hið klassíska atriði þar sem bóndinn og líffræðingurinn Doddi kryfur dýr verður að sjálfsögðu til staðar, hægt verður að fara inn í sýndarveruleika og aukinn veruleika með Gunnarsstofnun, prófa ýmsar tilraunir með rafmagn, skoða smáhýsi sem er í smíðum, gera litríkar tilraunir, að kynnast frumkvöðlum framtíðarinnar í nýsköpunarkeppninni, feta í fótspor keppenda í Gettu betur, prófa bragðlaukana, móta landslag í sandkassa, kynna sér ýmsar iðngreinar og möguleika sem nám í þeim færir og fá „heilsufarstékk“ á staðnum. Að auki mun 9. bekkur Nesskóla vera með kaffisölu í matsal skólans.

Dagskrá Tæknidagsins hefst stundvíslega klukkan 12 og stendur til klukkan 16 og veitir líkast til ekki af öllum þeim tíma fyrir gesti að kynna sér allt sem í boði er.

Gestir Tæknidags fjölskyldunnar geta vitaskuld kynnt sér viðamikið námsúrval Verkmenntaskóla Austurlands í viðbót við allt annað. Mynd GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.