Sameiginlegt átak til að efla sveitarfélög

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa undirritað yfirlýsingu um að móta tillögur sem leitt geta til frekari sameiningar sveitarfélaga. Ráðherra mun síðan leggja áætlun fyrir Alþingi til afgreiðslu.

 

Í tilkynningu frá Samgönguráðuneytinu segir að skipuð verður fjögurra manna nefnd sem meta skal sameiningarkosti í hverjum landshluta og skal hún kynna sér viðhorf sveitarstjórnarmanna og almennings til sameiningar. Skal hún að því loknu leggja fram tillögur um sameiningarkosti sem lagðar skulu fyrir landsþing eða aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2010 til umræðu og álits. Í framhaldi af því mun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra með hliðsjón af umræðum og áliti landsþingsins leggja fyrir Alþingi sem myndi ákveða hvernig sveitarstjórnarskipan liti út eftir 2014.

 

Með þessu er verið að kanna möguleika á nýjum aðferðum til sameiningar sveitarfélaga sem til þessa hafa farið fram með frjálsum samningum. Fyrirhugaður flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga á næstu misserum mun einnig skapa mun öflugri forsendur til stækkunar og sameiningar sveitarfélaga.

 

Kristján L. Möller og Halldór Halldórsson skrifuðu undir yfirlýsinguna í tengslum við samráðsfund ríkis og sveitarfélaga sem haldinn var í dag. Þar var annars vegar var fjallað um stöðu og horfur í búskap ríkis og sveitarfélaga og hins vegar um eflingu sveitarstjórnarstigsins og stöðu þess til framtíðar.

 

Í yfirlýsingunni er minnt á að unnið sé að flutningi á málefnum fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaga og nefndir vinni að endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Einnig segir að aðilar séu sammála um að vinna að eflingu sveitarstjórnarstigsins og að móta tillögur um leiðir til frekari sameiningar sveitarfélaga. Þá eru aðilar sammála um að leita nýrra leiða til að sameina sveitarfélög og eru vonir bundnar við að með því að leita eftir tillögum í samstarfi ráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga fáist fram raunhæfar tillögur sem samstaða getur orðið um.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.