Þórður á Skorrastað: Bóndinn er í mestu uppáhaldi

thordur_juliusson_skorrastad.jpg
Þórður Júlísson, bóndi á Skorrastað í Norðfjarðarsveit, ferðaþjónustufrömuður, líffræðingur og skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands segir sveitavinnuna vera það hlutverk sem honum líði best í. Hann segir skorta frekari sérstöðu til að gera Norðfjörð að alvöru áfangastað ferðamanna.

„Ég hef kannski haft bóndann í mestu uppáhaldi - allavega framan af. Lífið snerist um búskap og þar leið mér vel og líður reyndar enn vel. ég játa hinsvegar að eftir því sem aldurinn færist yfir mig er ég kannski ekki alveg jafn gíraður í bóndahlutverkið eins og ég var þegar ég var yngri,“ segir Þórður í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Hann segir ferðaþjónustufyrirtækið Skorrahesta verða sífellt stærri hluta af lífi sínu en framhaldsskólastarfið hafi verið fyrirferðamest síðustu ár. Þórður, sem árum saman hefur kennt við Verkmenntaskóla Austurlands ,verður skólameistari skólans næsta vetur. Olga Lísa Garðarsdóttir, fráfarandi skólameistari hefur verði ráðin til Fjölbrautaskóla Suðurlands en hún hafði áður fengið árs leyfi frá störfum.

Á sumrin hugsar Þórður fyrst og fremst um búskapinn og ferðaþjónustuna. Hann segir að efla verði sérstöðu Norðfjarðar til að gera hann meira aðlaðandi fyrir ferðamenn.

„Norðfjörður er endastöð og við þurfum að gera eitthvað sérstakt til þess að fólk komi hingað. Einu sinni stóð til að fá kafbát hingað til Norðfjarðar og sökkva honum einhvers staðar í fjörunni út með landinu en þó þannig að fólk gæti farið um borð. 

Þetta hefði verið eitthvað sérstakt og hefði þar af leiðandi haft eitthvað aðdráttarafl. Við þurfum að vera sérstök til að fá ferðamenn í heimsókn en líklega erum við ekki alveg nógu sérstök eða gerum að minnsta kosti ekki alveg nógu mikið í því að vera sérstök.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.