Þrjár sýninga opnaðar í Skaftfelli

Á morgun laugardag opna þrjár nýjar sýningar í Skaftfelli á Seyðisfirði, allar kl. 16. Nemendur 7.-10. bekkjar Seyðisfjarðarskóla opna eina þeirra í aðalsal Skaftfells, Hildur Björk Yeoman opnar aðra á Vesturvegg og Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Daníel Björnsson, Hekla Dögg Jónsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir opna þriðju sýninguna í Bókabúðinni, verkefnarými Skaftfells.

skaftfell.jpg

Ljós og skuggar

Nemendur 7. – 10. bekkjar Seyðisfjarðarskóla

7.11.09 – 15.11.09

Aðalsalur

Heaven and Hell are just one breath away!

Hildur Björk Yeoman

07.11.09 – 22.11.09

Vesturveggurinn

  

Regnboginn

Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Daníel Björnsson, Hekla Dögg Jónsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir

7.11.09 – 22.11.09

Bókabúðin - verkefnarými Skaftfells

Nemendur 7.-10. bekkjar Seyðisfjarðarskóla hafa í vetur stundað myndmenntanám í Skaftfelli undir handleiðslu Hjalta Þorkellssonar smíðakennara og myndlistamannanna Hönnu Christel Sigurkarlsdóttur og Helga Arnar Péturssonar. Í fyrstu lotu af þremur hafa þau unnið að sýningu í aðalsal Skaftfells og byggist hún á hugmyndum tengdum þemanu ,,ljós og skuggi". Jafnframt hafa nemendurnir velt fyrir sér nýtingu endurvinnanlegra efna og notað þau sem megin uppistöðu verka sinna. Efniviðinn hafa nemendurnir viðað að sér úr sínu nánasta umhverfi.

Hildur Björk Yeoman er fatahönnuður og tískuteiknari sem útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2006. Hún hefur starfað óslitið við fag sitt frá útskrift og hefur meðal annars framleitt fatalínu fyrir merkið Brigitte bird, gert tískuteikningar fyrir ýmsa hönnnuði og tímarit og staðið fyrir fjölda sýninga sem hafa beint eða óbeint með tísku og tíðaranda að gera. Hildur hannar einnig tösku og aukahlutalínu undir eigin nafni sem er seld í verslunum hérlendis sem og erlendis. Sýning Hildar Bjarkar Yeoman  á Vesturveggnum ber nafnið “HEAVEN AND HELL ARE JUST ONE BREATH AWAY!”  sem er  óbeint tilvísun í Andy Warhol og íslenska myrkrið. Þar sem bæði óhugnalegir og yndislegir atburðir geta  átt sér stað.

 

Hekla Dögg Jónsdóttir, Daníel Björnsson, Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Ásdís Sif Gunnarsdóttir sýna saman í annað sinn á dimmasta tíma ársins. Listamennirnir eiga það sameiginlegt að búa til verk sem eiga best heima í myrkri. Fyrsta sýningin sem þau héldu saman sem hópur hét "Ljósaskipti" og var opnuð þann 22. desember í Kling & Bang gallerí 2006. Þau gáfu frá sér nokkurs konar yfirlýsingu um að þau tengdust í gegnum sjónrænt tungumál, ákveðna rómantík gagnvart ljósum í myrkri, viðkvæmum efnum og myndvörpum; "gersömum og göldrum" í hlutum. Að rata á stjörnuhrap af því að skilningarvitin finna að það er eitthvað í loftinu. Nú blása þau til annarar sýningar sinnar í Bókabúðinni – verkefnarými Skaftfells á Seyðisfirði.

   

Sýningarnar eru opnar miðvikudaga til sunnudaga frá 13:00 - 17:00

  

Sýningar í aðalsal og á Vesturvegg eru opnar lengur um helgar samhliða Bistrói Skaftfells.

Sýningar í Bókabúðinni eru í gangi allan sólarhringinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.