Rekstur Helgafells tryggður til áramóta

Málefni dvalarheimilisins Helgafells hafa verið til umfjöllunar hjá Djúpavogshreppi undanfarið. Á fundi hreppsnefndar fyrr í mánuðinum voru þau tekin fyrir. Kom fram hjá oddvita að tekist hefði eftir umtalsverða baráttu að tryggja rekstur dvalarheimilisins, a.m.k. fram að næstu áramótum með aðkomu Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

djpavogshreppur.gif

 

,,Tíminn fram til áramóta verður nýttur til að vinna að varanlegri lausn á rekstrarformi Helgafells og þjónustu almennt við eldri borgara í samfélaginu hér í Djúpavogshreppi,“ segir í fundargerð hreppsnefndar. ,,Þegar hefur verið ákveðið, að ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála, ásamt HSA og heimamönnum á Djúpavogi komi að því að þróa slíka lausn. Þáttur heimamanna mun vega þungt í þeirri vinnu þ.e. að svara því til, hvernig þjónustu við viljum nákvæmlega búa eldri borgurum til framtíðar og hvaða þjónustu eldri borgarar óska sjálfir eftir í ljósi þess svigrúms sem skapað verður í þessum efnum. Oddviti vildi í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi var fyrir nokkrum vikum gagnvart starfsemi Helgafells, þakka heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni sérstakan skilning hans á málinu svo og Þuríði Backman þingmanni sem hafði einnig aðkomu að málinu, sem leitt hefur til þeirrar lausnar sem uppi er í dag.

 

Jafnframt þessu vill sveitarstjórn skora á alla íbúa Djúpavogshrepps og aðra velunnara Helgafells að taka nú höndum saman um að styðja með einum eða öðrum hætti við samfélag eldri borgara á Djúpavogi, m.a. með því að  koma á fót sérstöku Hollvinafélagi Helgafells sbr. fyrirheit þar um á undirskriftalista sem afhentur var heilbrigðisráðherra á dögunum. Hollvinafélag sem þetta getur haft úrslitaáhrif á þjónustu við eldri borgara á Djúpavogi til framtíðar litið og verður því m.a. ætlað það hlutverk í viðræðum um framtíðarlausn í þessum mikilvæga málaflokki sem við viljum með öllum hætti tryggja hér í samfélaginu. Sveitarstjórn fagnar niðurstöðu málsins og bindur jafnframt vonir við að ásættanleg framtíðarlausn verði fundin.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.