Reist í trú og skyldurækt

Sextíu ára afmæli Möðrudalskirkju var minnst með kvöldmessu í kirkjunni 4. september síðastliðinn.  Sr. Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli, rifjaði upp sögu kirkjunnar við það tækifæri.

mrudalskirkja.jpg

,,Í Möðrudal á Fjöllum hefur staðið kirkja um aldir. Kirkju er getið í svokölluðum Vilkins-máldaga frá 1397, er þáverandi biskup í Skálholti vísiteraði.  Hversu lengi þar á undan kirkja hefur staðið hér er ekki víst, en í Hrafnkelssögu er frá því sagt að er Sámur reið til þings hafi hann komið í Möðrudal og verið þar eina nótt og því ljóst að hér hefur byggð staðið frá því snemma á landnámstíð.

Saga Möðrudals er rík af frásögnum um menn og málefni. Hér er farið hratt yfir og minnst þess að Stefán Einarsson bóndi  byggði timburkirkju árið 1904 og kom hún í stað torfkirkju sem fyrir var.  Kirkjan sem Stefán lét reisa stóð til ársins 1925 en þá fauk hún í aftakaverðri. Kirkjulaust var svo í Möðrudal til ársins 1949, en þá var vígð þann 4. september kirkja sú sem við þekkjum best.

Jón Aðalsteinn Stefánsson bóndi í Möðrudal reisti þessa kirkju í minningu konu sinnar Þórunnar Vilhjálmsdóttur Oddsen, en hún lést 23. febrúar 1944. Kirkjan er hans verk, „reist í trú og skyldurækt við aldahefð á staðnum“ (Ágúst Sigurðsson: Forn frægðarsetur). Fullbúin var hún þegar Jón, ásamt Biskupi Íslands hr. Sigurgeiri Sigurðssyni og sex prestum gengu saman í prósessíu til kirkjunnar á vígsludaginn, en við messu þann dag þjónaði sr. Sigurjón Jónsson í Kirkjubæ. „Lauk hátíðinni með veizlu,“ segir sr. Ágúst Sigurðsson í bók sinni Forn frægðarsetur, „sem heimafólk bauð til af viðurtekinni staðarrausn.“

 Ómetanlegur arfur 

Kirkja Jóns í Möðrudal þykir falleg smíð, falleg í hlutföllum og frágangur vandaður.  Hana sér langt að, - vitni  um að hér hátt til fjalla og langt frá öllu þéttbýli er að finna helgidóm þar sem skjóls má leita þegar hretviður hugans leita á – þegar glaðst er á góðum degi – þegar þakkað er fyrir farsæla för og beðið þess, að Drottinn láti ekki fót skriðna. (...) En Jón í Möðrudal gerði meira en að reisa kirkju.  Hann skreytti hana líka með einstæðri altarismynd, sem sýnir Jesú tala til fólksins af fjallinu.  Í Fjallræðu Jesú er að finna kjarnann í boðskap hans.  Þennan kjarna hefur Jón viljað minna á og gefa öllum  þeim sem til kirkjunnar koma hlutdeild í. (...) Arfur sá sem Jón í Möðrudal skilur eftir er ómetanlegur.  Þökk sé afkomendum hans stendur kirkjan í Möðrudal enn traust og einhvern veginn óhagganleg , sama alúð og lögð var í hvert handtak við kirkjusmíðina er nú lögð í viðhald hennar og fegrun svo hún megi áfram bera ljós af ljósi Krists hér hátt til fjalla,  svo hún sé áfram merkisberi Jóns Aðalsteins Stefánssonar í Möðrudal,” sagði sr. Lára meðal annars í ræðu sinni í Möðrudal.

  

Í tilefni afmælisins bárust kirkjunni góðar gjafir. Voru það kaleikur, patína og vínkanna, vatnskanna og glas, tíu þúsund krónur, bænabók og peningagjöf frá Múlaprófastsdæmi, auk þess sem kirkjunni barst í sumar nýr grænn hökull og stóla að gjöf.

-

Mynd/www.kirkja.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.