Ræða örlög vegakerfis Kárahnjúkavirkjunar
Fulltrúar Landsvirkjunar og Vegagerðarinnar hittust í gær og ræddu á fundi hverjir gætu orðið hugsanlegir veghaldarar allra þeirra vega og slóða sem orðið hafa til vegna Kárahnjúkavirkjunar og einnig þeirra sem fyrir voru á hinu víðfeðma svæði sem áhrifasvæði virkjunarinnar nær yfir. Engar ákvarðanir hafa verið teknar og eru þessi mál á umræðustigi enn sem komið er. Hreggviður Jónsson tók árið 2004 saman skýrslu um tilurð vega á svæðinu og meðal annars eru þar fjörtíu ára gamlir vegir sem RARIK lét gera. Landsvirkjun og Vegagerðin ákveða hvaða vegi fyrirtækin hyggjast eiga og reka áfram og sveitarfélögin Fljótsdalshreppur og Fljótsdalshérað þurfa svo væntanlega að gera upp við sig hvort og þá hvaða vegi þau hyggjast ábyrgjast sem veghaldarar.