Páll Óskar: Tölvupopp er yfirsetuvinna

pall_oskar.jpg
Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson spilar þrisvar fyrir Austfirðinga um helgina. Hann byrjaði á Fjarðaballi í gærkvöldi en spilar fyrir börn og loks fullorðna í Valaskjálf á Egilsstöðum í kvöld. Austurfrétt hitti Palla í gær og ræddi við hann um hvernig sé að spila úti á landi og fyrstu stuttmyndina sem hann er að klára.

Við hittum Palla inn í setustofunni á Valaskjálf. Hann er nýlentur og varla búinn að taka upp úr töskunum þegar okkur er  boðið upp á pönnsur og kaffi. Innan úr hliðarsal berast lætin úr hljóðprufu, Úti er rigning og haustlegt en inni góð stemmin. Við setjumst niður, fáum okkur sopa af rjúkandi heitum drykknum og byrjum að ræða saman. 

Fyrsta gigg Palla var Fjarðaballið, árlegt ball elstu bekkja austfirsku grunnskólanna. Í dag heldur hann síðan barnatónleika klukkan fimm í Valaskjálf. „ Það er ókeypis inn, allir velkomnir og sér í lagi foreldrar í fylgd með börnum. Fullorðnum verður ekki hleypt inn nema í fylgd barna,“ segir Páll Óskar kíminn. 

Það fer enginn tómhentur heim

Þar ætlar hann að taka nokkur lög og allir fá veggspjöld árituð. „Af fenginni reynslu er það mesta sportið, svo það er um að gera að mæta með myndavélar og ef einhver vill stilla sér upp þá er það hið besta mál. Við tökum okkur góðan tíma í það. Það fer enginn  tómhentur heim.“

Eftir smá hvíld er svo talið í alvöru Pallaball með öllu skrautinu sem því fylgir, það er 18 ára ball.

Sama orkan í hvert einasta gigg

Páll Óskar er einhver skærasta tónlistarstjarna Íslendinga. Hann hefur selt plötur í bílförmum og fyllir staðina hvar sem hann kemur. Samt er langt síðan hann kom austur síðast.

„Já en svo fer þetta líka alltaf dálítið eftir vertunum. En ég er allavega ofsalega feginn og þakklátur Hjalta vert í Valaskjálf að við náðum að gera þetta og ef þetta gengur vel þá er kominn grundvöllur fyrir að gera þetta oftar.“

Páll segist ekki finna mun á því hvort hann spili fyrir gesti í höfuðborginni eða úti á landi. „Ég hef aldrei sett mig í neinar stellingar eftir því hvar ég er að spila eða fyrir hvern. Hjá mér fer alltaf sama orkan í hvert einasta gigg. Í stuttu máli sagt, að ef ég veit að ég er að fara troða upp þá er ég ekkert að gera neitt annað allan daginn. Allt frá því að stilla upp og taka hljóðprufu. Svo þarf maður að koma sér á staðinn eins og núna. 

„Ég þarf að sæka mig upp í þetta“

Ég tek alltaf rosa góðan tíma í að gíra mig upp, þess vegna byrja ég að spila alltaf áður en húsið opnar. Ég er byrjaður að þeyta skífum fyrir sjálfan mig, bara til að koma mér í fíling. Þá er alveg gulltryggt að þegar kjötið kemur í húsið þá er ég orðinn rosa mjúkur og heitur. Ég gæti aldrei farið upp á svið í óspurðum fréttum. Ég þarf að sæka mig upp í þetta. 

Þetta er ekkert ósvipað og hjá  handboltakappa. Ég get lofað þér að allur dagurinn fer í það hjá honum að hita sig upp og gera sig kláran andlega í leikinn. Þetta er ekkert  ósvipað hjá mér, að þessu leyti  tengi ég vel við íþróttamenn. Flestar helgar eru svo langar helgar. Ég er oft að spila fimmtudag, föstudag og laugardag.

Ég er rotaður á sunnudögum. Þá passa ég mig að sofa alveg út. Ég næ samt alltaf að sofa 8. tíma á dag. Annars væri þetta ekki hægt.“

Vissi að ég yrði fyrri hluta ævinnar á sviði, þann seinni fyrir aftan myndavélina

Fyrir utan að spila þrjú kvöld í viku er Páll Óskar með næg járn í eldinum. Hann er að vinna að nýrri plötu sem hann segir að komi „kannski“ út jólin 2013. „Ég verð ánægður ef ég verð kominn með nógu mikið af lögum næsta sumar. Ég verð að gefa mér góðan tíma í þetta. Tölvupopp er yfirsetuvinna. Ef þetta á að vera flott þá tekur það tíma.“

Að auki er Palli að klára sína fyrstu stuttmynd. Það er gamall draumur, eitthvað sem hann var alltaf sannfærður um að myndi gerast.„Ég er búinn að tuða um það í fjölda ára að mig langi að fara út í kvikmyndir, bíónördið sem ég er. Og núna er þetta bara að gerast,“ segir Páll og brosir.

„Þetta er fræðslu og fornarvarnarverkefni  á vegum menntamálaráðuneytisins. Þetta er svolítið stórt átak á þeirra vegum og verkefnið lítur mjög vel út. Við erum með sterkt handrit og sterka mynd.

Ég vissi þetta einhvern vegin allt frá því að ég var smástrákur. Að fyrri helming ævinnar yrði ég á sviði að troða upp og syngja og gera allt vitlaust. En seinni helminginn myndi ég vera meira fyrir aftan myndavélina og alveg off stage og núna er þetta alveg að fara að gerast!“

Hitchcock er skíturinn

Á meðan við tölum um bíómyndirnar hringir síminn hjá Palla. Hann er augljóslega vinsæll maður. Við höfum ekki talað lengi saman en þetta er hvorki fyrsta né eina símtalið sem hann hefur fengið meðan við sitjum með honum.

Hann er samt kominn á flug þegar hann talar um bíómyndirnar. „Mín uppáhalds mynd? Í öllum heiminum? Fullkomnasta mynd í heimi heitir Vertigo,“ segir Páll þegar við spyrjum hann um hans uppáhaldsbíómynd.

„Hitchcock er skíturinn. Það er ótrúlegt hvað þessum manni tókst að gera margslungnar myndir og oftar en ekki eru þessar myndir heilmikil sálfræði stúdía í dulargervi tryllis. Hitchcock bjó til grunn sem við erum öll að fara eftir. Hann var algjört sjéní.“

Íslensk kvikmyndagerð komin af gelgjuskeiðinu

Af íslenskum bíómyndum nefnir Páll Óskar Óróa. „Hún nær að ramma inn ótal margt sem íslenskum kvikmyndum hefur ekki tekist að gera áður. Með Óróa og Svörtum á leik þá líður manni eins og íslensk kvikmyndagerð sé komin af gelgjuskeiðinu, hún er að verða fullorðin.

Þessi kvikmyndagerðarmenn sem eru að í dag eru búnir að læra af mistökum forvera sinna og nota líka aðferðir og frásagnatækni sem virkar fyrir okkur í dag. Mér líst vel á blikuna núna í kvikmyndagerð.

Það eru samt tvær myndir sem eiga sér stað í hjarta mér, það eru Morðsaga og með Allt á hreinu.“

Vonandi getum við gert þetta aftur og aftur

En í bili er það tónlistin sem líf Palla snýst um. Áður en stuttmyndin kemur út þarf hann að klára tvær skemmtanir í Valaskjálf. Og hann á sér eina ósk fyrir þær, sem hann ítrekar.

„Ég vona að það verði fjölmennt hérna á ballinu svo það verði hægt að gera þetta aftur og aftur og aftur.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.