Orð gegn orði hjá Guðmundi R.

Tónlistarmaðurinn Guðmundur R. Gíslason í Neskaupstað sendi á föstudag frá sér nýtt lag sem hann kallar „Orð gegn orði.“ Hann vann lagið með Árna Bergmann, raftónlistarmanni frá Hornafirði sem í dag starfar í Danmörku.

„Ég fann hann á Facebook og sendi honum skilaboð. Það tók hann nokkra daga að svara og á meðan beið ég spenntur. Hann mundi eftir SúEllen frá því hann var polli á Hornafirði og því var hann til í að skoða samstarf. Við tókum síðan lengra samtal og komumst að því við ættum vel saman,“ segir Guðmundur um upphafið að samstarfi þeirra Árna.

Árni er trommuleikari dönsku rafrokksveitarinnar Hugorm. Hún hefur getið sér sérstaklega góðs orð fyrir tónleika sína auk þess að vekja athygli fyrir samstarf sitt við Frank Hvam, annan hálfvitanna úr dönsku þáttunum Trúður.

Engar mannorðsþvottavélar til


Um titil lagsins og texta segir Guðmundur: „„Eins og orð geta verið falleg þá geta þau líka verið meiðandi og hættuleg. Á netinu er stundum allt látið flakka og oft beinlínis framin mannorðsmorð að óathuguðu máli. Það sem búið er að skrifa og segja er erfitt að taka til baka og mannorðsþvottavélar eru ekki til.

Oft eru þeir sem fara ógætilega með orðin í ákveðinni vörn og reiðin hleypur oft með fólk í gönur. Við óskum þess að fólk noti orðin frekar til að hrósa, vekja von og ljá ljós í hjarta í stað þess að meiða. Fokk stafrænt ofbeldi!“

Fleiri Danir leggja sitt af mörkum í laginu því söngkonan Marianne Storm litar það með klassískum söng. „Hún kann ekki stakt orð í íslensku en var fljót að læra rétta framburðinn,“ segir Guðmundur.

Guðmundur R. vildi kynnast nýju fólki til að vinna með


Guðmundur R. er þekktastur fyrir veru sína í hljómsveitinni SúEllen en hann hefur frá árinu 2007 gefið út fjórar sólóplötur, þá síðustu, Einmunatíð, árið 2022. Hann segist eftir þá plötu hafa ákveðið að leita að nýju fólki til að vinna með og þá hafi vinur hans í Danmörku bent honum á Hugorm.

Árni er uppalinn á Hornafirði, ættaður úr Hamarsfirði, en flutti fyrst til Manchester í Englandi til að læra hljóðtækninám en síðan til Danmerkur árið 2001 til að vinna í tónlistinni. Hann hefur unnið með hljómsveitum á borð við The Raveonettes, Nephew, Spleen United auk Jónasi Sig og Lights on the Highway hérlendis.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.