Opið hús hjá slysavarnardeildum

hafdis_fask_slysavarnardeild.jpgFimm austfirskar slysavarnardeildir verða með opið hús annað kvöld. Þær slást þar í hóp slysavarnardeilda um allt land sem bjóða gestum heim til að kynna starf sitt.

 

Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar starfa öflugar slysavarnadeildir sem hafa það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir slys ásamt því að styðja við björgunarsveitir á sínu svæði. Starf þessara deilda á sér langa sögu en fyrstu deildirnar voru stofnaðar fyrir um 80 árum og hafa í gegn um tíðina unnið öflugt starf í þágu björgunar og slysavarna.

Öryggi sjómanna hefur alla tíð verið slysavarnadeildum hugleikið enda margar deildanna stofnaðar í þeim tilgangi einum saman að efla sjóslysavarnir. Ekki var vanþörf á því starfi þar sem mest hafa 80 sjómenn látið lífið við Íslandsstrendur á einu ári en með miklu og góðu starfi deildanna og fleiri aðila svo og þróun tækja og búnaðar hefur náðst góður árangur í sjóslysavörnum. Þannig var árið 2008 án mannskaða á sjó og telja fróðir menn að þurfi að leita allt aftur á landsnámsöld til að finna sambærilegt ár.

En starf slysavarnadeilda hefur þróast í áranna rás og fjölmörg ný verkefni litið ljós. Þannig hafa deildirnar sinnt slysavarnaverkefnum sem lúta að öryggisbúnaði barna í bílum, öryggi eldri borgara á heimilum, hafa dreift endurskinsmerkjum til barna, kannað hjálmanotkun barna, skoðað öryggi á heimilum og svona mætti lengi týna til. Í stuttu máli má segja að ekkert viðkomandi slysavörnum sé deildunum óviðkomandi.

Stór þáttur í starfi margra slysavarnadeilda er stuðningur við björgunarsveitir og þannig starfa margar deildir náið með sveitum á sínu svæði bæði við fjáraflanir, sem bakland í útköllum og á margan annan hátt.

Innan slysavarnadeilda starfa margir einstaklingar um allt land og óhætt er að segja að félagsskapurinn sé góður enda má einnig finna í starfi sveitinna dagskrá sem eflir liðsandann auk þess sem félagar deildanna sækja sér fræðslu og þjálfun í ýmsu sem tengist starfinu.

Austfirsku deildirnar fimm sem opna dyr sínar klukkan 20:00 annað kvöld eru:

Slysavarnadeildin Hafrún Eskifirði. Slysavarnahúsinu
Slysavarnadeildin Hafdís Fáskrúðsfirði, inni í Óslandi
Slysavarnadeildin Sjöfn Vopnafirði, í Vogabúð
Slysavarnadeildin Framtíðin Höfn
Slysavarnadeildin Ársól Reyðarfirði, Þórðarbúð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.