Ópera er eins og sushi

„Við Þorvaldur Davíð erum systkinabörn og höfum oft rætt í fjölskylduveislum hve mikið okkur langar að koma austur með metnaðarfullt verkefni,“ segir söngkonan Berta Dröfn Ómarsdóttir, en hún og leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson sameina krafta sína ásamt fleirum og frumflytja óperuna The Raven's kiss í Herðubreið á Seyðisfirði næsta sumar.


Berta Dröfn og Þorvaldur Davíð eru bæði ættuð að austan. Þau segja markmið verkefnisins vera að gefa þeim fjölmörgu listamönnum sem eiga rætur sínar að rekja til Austurlands vettvang til að vinna og koma fram á heimaslóðum.

„Ræturnar austur eru sterkar, þó svo ég hafi ekki alist upp hérna eru báðir foreldrar mínir héðan. Það er eins með Þorvald Davíð. Við erum alin upp í austfirskri nostalgíu, þar af leiðandi finnst okkur við tilheyra svæðinu og langar til að rækta það,” segir Berta Dröfn.

Óperan The Raven's kiss er eftir þá Þorvald Davíð Kristjánsson og Evan Fein, en þeir kynntust í The Julliard School í New York, þar sem þeir stunduðu nám. Óperan byggir á íslenskri þjóðsögu og er skrifuð fyrir fimm einsöngvara og litla hljómsveit.

Þorvaldur Davíð mun leikstýra uppsetningunni og Berta Dröfn fara með eitt aðalhlutverkið. „Núna stendur yfir sú vinna að finna réttu söngvarana og hljóðfæraleikarana í verkefnið, framúrskarandi listafólk með tengingu við Austfirði. Allir sem standa að baki uppsetningunni eru starfandi listamenn sem eru að gera það gott á sínu sviði.”

Orðinn meðlimur í kirkjukórnum fimm ára
Berta Dröfn lauk burtfararprófi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík og kennaraprófi úr sama skóla. Hún lauk svo mastersgráðu í ljóða- og kirkjusöng frá Conservatorio Monteverdi í Bolzano á Ítalíu.

„Ég er prestsdóttir. Móðir mín er Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, sóknarprestur á Fáskrúðsfirði. Segja má að ég hafi alist upp í kirkjunni. Ég var orðin meðlimur í kirkjukórnum fimm ára gömul og var snemma farin að fá tækifæri til að syngja sóló í athöfnum.“

Berta segist hafa verið mjög virkur, forvitinn og orkumikill krakki. „Ég vildi fara sem skiptinemi til að upplifa eitthvað fáránlegt ævintýri. Mömmu og pabba fannst ég aðeins of frökk í slíka reisu og þeirra lokaútspil í því að halda mér heima var að kynna mig fyrir Söngskólanum í Reykjavík. Þau fóru með mig í inntökupróf þegar ég var 16 ára og ég komst inn. Á fyrstu vikunni fékk ég viðtal við skólastjórann, Garðar Cortes, og tjáði honum að ég væri mjög ánægð með að hafa komist inn í skólann, en spurði hvort ég mætti ekki taka mér pásu til þess að fara sem skiptinemi og koma svo bara aftur. Ég fékk það í gegn og fór til Kosta Ríka í ár, þannig að ég náði bæði að halda foreldrum mínum góðum og komast mína leið,” segir Berta og hlær.

Berta segir það í raun aldrei hafa verið ákvörðun að fara í sönginn. „Þetta var bara það sem lá fyrir mér, ég hef alltaf verið syngjandi. Það var svo „made in heaven“ að koma í Söngskólann í Reykjavík. Við Garðar náðum strax mjög vel saman, ég fór að vinna þar með náminu og er þar enn samhliða mínum verkefnum í söngnum. Mestmegnis hef ég verið að vinna erlendis og ég ýmist skipulegg verkefnin mín sjálf eða þau koma til mín,” segir Berta Dröfn.

„Ópera er allur pakkinn“
Aðspurð um hvað heilli hana við óperu segir Berta Dröfn: „Ópera er allur pakkinn; sjónarsvið, saga, tónlist, búningar, leikur og drama. Ef maður hefur gaman af listum ætti maður að geta haft gaman af óperu. Fólk hefur líkt þessu við sushi; það er fyrst rosalega skrítið, jafnvel of mikið af hrísgrjónum og wasabi. Ef maður hins vegar fellur fyrir sushi verður maður alveg húkkt og vill meira og meira, þeir skilja sem tengja við þetta. Það er eins með óperu; framandi í fyrstu en ef þú kemst upp á lagið viltu meira og meira.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.