„Oft var brekkan mjög brött“

„Mér fannst kominn tími á breytingar, bæði fyrir mig og ekki síst liðið. Ég hef trú á að þetta sé rétt ákvörðun á réttum tíma,“ segir Viðar Jónsson, fráfarandi þjálfari karlaliðs Leiknis á Fáskrúðsfirði, en hann hefur stýrt liðinu frá því vorið 2014. Viðar er í yfirheyrslu vikunnar.


Liðið var í 3. deild þegar Viðar tók við, komst upp í 2. deild árið eftir og þaðan upp í Inkasso-deildina þar sem það hélt sér tvö keppnistímabil áður en það féll aftur í 2. deild þar sem það er í dag. Viðar segir að þjálfaratíðin hafi bæði verið lærdómsrík og eftirminnileg.

„Ég hef lært ótrúlega margt á þessum fimm árum. Fyrst af öllu þá hef ég menntað mig meira og er orðinn mun þroskaðri og betri persóna og þar af leiðandi betri þjálfari fyrir vikið. Ég hef líka lært að það er hægt að ná fjarlægum markmiðum með litlu liði langt frá Reykjavík.

Fyrstu tvö tímabilin voru auðveldari en síðustu þrjú því þar unnum við marga leiki og fórum upp um tvær deildir. Það er ótrúlega auðvelt að vera þjálfari þegar vel gengur miðað við þegar færri sigrar vinnast.

Fyrra tímabilið í Inkasso var erfitt en mjög skemmtilegt. Þá fyrst reyndi á mannskapinn og þá lærir maður fyrir alvöru að takast á við mótlæti. „Fake it until you make it“ var mitt mottó seinni hluta þess sumars og oft var brekkan mjög brött, en þá skiptir máli að fá hópinn til að trúa og æfingu eftir æfingu var það erfitt en það borgaði sig. Í lok þess tímabils kom upp eftirminnilegasta stund þessa tíma þegar við björguðum okkur á ótrúlegan hátt frá falli í lokaleik tímabilsins. Þurfum að vinna HK, helst stórt, og vona að Selfoss myndi vinna Huginn. Bæði gekk upp og þá lærði ég að það er allt hægt ef trúin og jákvætt hugafar er til staðar. 

Falltímabilið í Inkasso var erfitt og sigrarnir fáir. Við töpuðum til dæmis 11 leikjum í röð og þá kom oft upp sú hugsun að þetta væri komið gott. Með stuðningi fjölskyldu og stjórnar ákvað ég að klára það tímabil og halda áfram með liðið. Tímabilið 2018 gekk ekki eins og ég vildi en endaði vel miðað við stöðu okkar undir lokin. Við héldum stöðu okkar í 2. deild og ég var mjög glaður að geta kvatt liðið, stuðningsmennina og stjórnina í betri stöðu en þegar ég tók við því vorið 2014.“


Félögin þurfa að vinna meira í stefnumörkun og markmiðssetningu
Telur Viðar að fótboltinn sé á réttu róli hérna fyrir austan. Ef ekki, hvað stendur okkur helst fyrir þrifum?

„Fyrst og fremst þarf að gera okkur kleift að spila fleiri leiki, en bæði yngri flokkar og meistaraflokkar eru miklir eftirbátar liða á stór-Reykjavíkursvæðinu hvað það varðar. Síðustu fimm ár höfum við í Leikni kappkostað að vera ekki eftirbátar Reykjavíkurliðanna í þeim málum og hefur það tekist ágætlega, en við höfum spilað 15 – 18 leiki fyrir Íslandsmót.

Til þess að geta haldið ungum og efnilegum leikmönnum á staðnum er það alger forsenda að þeir að fái góða þjálfun menntaðra þjálfara og spili eins marga leiki og þeir bestu. Umræðan snýst oft upp í að það þurfi að sameina lið til að ná árangri. Það gæti verið rétta skrefið, til dæmis held ég að Huginn og Höttur gætu verið öflugri saman, sérstaklega þegar göngin verða komin. KFF og Leiknir gætu verið álitlegur kostur til framtíðar og þá þykir mér módelið hjá ÍA og Kára góð fyrirmynd. Draumurinn væri náttúrulega að öll lið á svæðinu myndu sameinast og úr yrði gott Pepsi-lið en það er líklega ekki raunhæft, eða hvað?

Okkar saga okkar í Leikni sannar það kannski að maður þarf ekki endilega að vera stór til að ná árangri, en það er erfitt að halda stöðuleika. Svo held ég að félögin þurfi að vinna meira í stefnumörkun og markmiðssetningu frá yngstu iðkendum upp í meistaraflokka.“

Fullt nafn: Viðar Jónsson.

Aldur: 41.

Starf: Grunnskólakennari og stjórnarformaður Norðurljósahúss Íslands.

Maki: Hafdís Rut Pálsdóttir.

Börn: Kristófer Páll (21), Sæþór Ívan (16), Patrekur Viðar (14) og Annar Ragnhildur (7).

Með hvaða liði heldur þú í ensku deildinni og af hverju? Liverpool. Þetta var bara liðið sem allt snérist um þegar ég var pjakkur. Svo var Sæja frænka dugleg að ýta að mér bókum um Liverpool.

Þín fyrsta æskuminning? Ætli það sé ekki þegar ég var heyskap hjá afa og ömmu og hoppaði af baggastæðu og tognaði illa á fæti.

Hvað hefur helst mótað þig sem einstakling? Umhverfið sem ég kem úr. Ólst að mestu upp hjá afa og ömmu í rólegu umhverfi á fallegsta stað Íslands.

Hver er þín helsta fyrirmynd í lífinu? Amma Lauga heitin og Ölli húsvörður.

Hver er þinn helsti kostur? Skipulagður.

Hver er þinn helsti ókostur? Skrímslið undir rúminu.

Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Alæta. Fer á tónleika með Stjórninni og Metallica sama kvöldið.

Settir þú þér áramótaheit? Nei ekkert sérstakt.

Mesta afrek? Halda Leikni í Inkasso 2014 og taka á móti Patreki Viðari í hjónarúminu 13. júlí 2004.

Duldir hæfileikar? Ekki svo ég viti.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Engin börn þurfi að líða skort.

Hvað var í tísku þegar þú varst unglingur en er það ekki í dag? Jet Black Joe og grænu vaxkápurnar.

Hvaða einstakling finnst þér þú þekkja, þótt þú hafir aldrei hitt hann? Jürgen Klopp.

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í heiminum á þínum líftíma? Þegar börnin mín komu í heiminn.

Hvaða hljóð fer mest í taugarnar á þér? Alskonar hljóð í Man. Utd. stuðningsmönnum.

Ertu með eitthvað markmið sem þú klára á árinu? Já, ég verði í fyrsta sæti hjá mér út árið.

Hvað gerir þjálfara að góðum þjálfara? Góðir samskiptahæfileikar, skipulagshæfileikar, jákvæðni og góð markmiðssetning eru mjög mikilvægir hæfileikar. Mikill áhugi á starfinu hjálpar mikið svo og góð menntun að sjálfsögðu.

Hvað ættu allir að prófa að minnsta kosti einu sinni í lífinu? Hrósa óvini sínum.

Yfir hverju getur þú alltaf hlegið? Þegar Man.Utd. tapar.

Borðarðu mat sem er kominn fram yfir síðasta söludag? Já kemur fyrir.

Hvað er þitt mottó í lífinu? Gerðu þitt besta.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Að minnsta kosti ekki að stjórna fótboltaleik. Hugmyndin er að fara á tónleika með Stjórninni í Hörpu. Slaka á með konunni og fjölskyldunni.Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.