Oddviti Djúpavogs ósáttur við lokun Helgafells

Oddviti Djúpavogshrepps segir að ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Austurlands um að loka dvalarheimilinu Helgafelli hafi verið tekin án samráðs við forráðamenn sveitarfélagsins. Hann gagnrýnir orðalag fréttatilkynningar framkvæmdastjóra HSA frá í gærkvöldi.

 

ImageÍ yfirlýsingu sem Andrés Skúlason, oddviti, sendi fjölmiðlum í morgun gagnrýnir hann framsetningu tilkynningar HSA frá í gær sem hann segir að hafi mátt skilja sem svo að ákvörðunin hafi ekki verið tekin fyrr en eftir fund með oddvita og sveitarstjóra í gær „rétt eins og að þar hafi fulltrúar Djúpavogshrepps átt aðkomu og kvittað fyrir gjörninginn. “

Hann segir ákvörðunina hafa verið tekna áður en óánægju fulltrúa Djúpavogshrepps hafi verið komið „skilmerkilega á framfæri“ á fundinum. „Enda var ákvörðunin ekki í samræmi við það samkomulag sem gert hafði verið á milli sveitarfélagsins og HSA á vordögum.“

Hann segir það fjarstæðukenndan málatilbúnað að láta það líta út eins og ákvörðun HSA hafi nánast alfarið verið byggð á að sveitarfélagið ætlaði ekki að halda áfram rekstri eitt og sér eftir áramót. „Sú staðreynd lá jafn ljós fyrir  þegar samið var um að HSA héldi áfram rekstri fram að áramótum.

Áætlun sveitarfélagsins gerði hinsvegar ráð fyrir að treysta á aðkomu félagsmálaráðuneytisins frá og með áramótum , en eins og framkvæmdastjóri HSA hafði þegar komið á framfæri við oddvita taldi hann með öllu útilokað að aðkoma þeirra yrði til staðar með markverðum hætti í ljósi þeirra nýju niðurskurðartillagna sem liggja fyrir hjá ríkisvaldinu.

Sú staðreynd að sveitarfélagið geti ekki eitt og sér rekið Dvalarheimilið Helgafell án utanaðkomandi aðstoðar var því hreint ekki að koma upp í fyrsta skipti á fundi milli aðila í gær og því óskiljanlegt með öllu að fréttatilkynningin skuli sett fram í þessu samhengi,  rétt eins og um einhverjar nýjar upplýsingar sé að ræða í þessum efnum.“

Andrés segir vissulega rétt að vistmönnum á Helgafelli hafi fækkað og staða þess því veikst.

Yfirlýsingunni lýkur hann á orðunum: „Það er því ágætt viðmið að halda sig sem næst sannleikanum, ekki síst þegar fréttatilkynningar af hendi opinberrar stofnunnar eru sendar  út til fjölmiðla.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.