Nýr harmonikkukonsert fluttur á Vopnafirði

Þó engin verði Atlavíkurhátíðin þurfa Austfirðingar ekki að óttast skort á tónlistarviðburðum um Verslunarmannahelgina. Víða verða haldnir tónleikar og eins og verða vill um þessa miklu tónlistarhelgi eru það einkum popp- og rokksveitir eða dægurlagasöngfólk sem lætur ljós sitt skína. Á Vopnafirði verður hins vegar boðið upp á klassíska kammertónleika.

 

Það er kammersveitin Elja sem mun heimsækja Vopnfirðinga um helgina. Tónleikarnir eru hluti af fyrstu tónleikaferð sveitarinnar um landið, sem einnig mun halda tónleika í Skagafirði, Ólafsfirði, á Kirkjubæjarklaustri og í Reykjavík. Á dagskrá verður bæði sígild og samtímatónlist. Meðal annars verður frumfluttur nýr harmonikkukonsert eftir Finn Karlsson og einnig verða á efnisskránni verk eftir Caroline Shaw og Igor Stravinsky auk sinfóníu nr. 4 eftir Felix Mendelsohn. Stjórnandi verður Bjarni Frímann Bjarnason, en hann er einn af stofnendum sveitarinnar.


Klassísk hringferð
Sveitin mun fara hringinn í kringum um landið og verða haldnir tónleikar í öllum landsfjórðungum. Fyrstu tónleikarnir verða þann 30. júlí í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði. Þaðan liggur leiðin á Berjadaga í Ólafsfirði og eftir það verður haldið á Vopnafjörð. Að þeim loknum heldur sveitin á Kirkjubæjarklaustri þar sem hún leikur í Kirkjuhvoli 4. ágúst og svo loks verða síðustu tónleikar ferðarinnar haldnir í Háteigskirkju í Reykjavík þann 7. ágúst.


Hljómsveit unga fólksins
Það er ekki lítið fyrirtæki að ferðast um landið með kammersveit, en alls skipa Elju í þessari ferð 32 hljóðfæraleikarar. Sveitin er skipuð ungu íslensku tónlistarfólki sem hafa einbeitt sér að ferli sem einleikarar, hljómsveitaspilarar og við hljómsveitarstjórn. Margir meðlima Elju stunduðu saman nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands áður en þeir héldu í frekari háskólanám. Undanfarin ár hafa hljóðfæraleikarnir lagt metnað sinn í að samstilla sveitina sem einingu en markmið hljómsveitarinnar er að bjóða upp á kraftmikinn og lifandi tónlistarflutning með nánd við áhorfendur og mun hún takast á við allar þær stefnur og form sem hljóðfæraleikararnir leitast eftir að túlka.

Sveitin hefur undanfarin ár markað sér sess sem ein af fremstu kammersveitum landsins og hefur vakið athygli fyrir líflegan og ferskan flutning. Hún hefur komið reglulega fram síðan 2017 og hefur haldið tónleika í hinum ýmsu húsakynnum í Reykjavík, svo sem í Gömlu kartöflugeymslunum, Hörpu, Iðnó, Gamla bíói og Tjarnarbíói. Kammersveitin hefur hlotið mikið lof fyrir flutning sinn og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2019 sem flytjandi ársins í flokknum Sígild- og samtímatónlist.


Fjölskyldustemming á ferðalagi

Valdís Þorkelsdóttir, framkvæmdastjóri Elju, segir það alveg frá upphafi hafa verið stefnu sveitarinnar að halda tónleika úti um landið. „Þau byrjuðu 2017 og síðan þá hefur þetta verið á stefnuskránni og nú er þetta að verða að veruleika sem okkur þykir mjög spennandi.“ Það er sem fyrr segir allnokkurt fyrirtæki að ferðast um með heila kammersveit, en það eru ekki bara hljóðfæraleikarnarnir sem þarf að hugsa um.

„Það verða alls 42 í ferðinni, þau sem eiga lítil börn taka þau með og makar koma með til að gæta þeirra þannig að það verður mikil fjölskyldustemming yfir þessu öllu saman.“

Aðspurð hvers vegna Vopnafjörður varð fyrir valinu segir Valdís að þau hafi fengið ábendingu þar um. „Við vorum ákveðin í því að við vildum spila í öllum landsfjórðungum. Þórunn Gréta Sigurðardóttir, sem er formaður Tónskáldafélags Íslands, benti okkur á Vopnafjörð sem mögulegan stað fyrir tónleika okkar fyrir austan og við ákváðum að láta slag standa með það og hlökkum mikið til.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.