Næstum nógu mikið en of seint

Höttur tapaði fyrir Þór Akureyri, 72-75, í leik liðanna í 1. deild karla í körfuknattleiks á fimmtudagskvöld. Hattarliðið virtist vera búið að tapa leiknum þegar pressuvörn og nýi maðurinn Akeem Clark hrukku í gang á lokamínútunum.

 

karfa_hottur_thorak_web.jpgHattarmönnum gekk bölvanlega að skora. Eftir fyrsta fjórðung var staðan 11-15, 30-38 í hálfleik og 40-59 eftir þriðja fjórðung. Þar með virtust sigur norðanmanna í höfn. Miðað við hvernig leikurinn hafði spilast virtust Hattarmenn ekki líklegir til að vinna upp tuttugu stiga mun.

Munurinn hélst nokkurn vegin sá nema að seinustu fimm mínútur leiksins beittu Hattarmenn pressuvörn. Um svipað leyti hrökk nýi Bandaríkjamaðurinn, Akeem Clark, í gang og raðaði niður þriggja stiga skotum. Þegar rúm mínúta var eftir var munurinn kominn í tíu stig en hálfri mínútu síðar var hann enn minni.

Í stöðunni 71-74 fengu Hattarmenn vítaskot. Clark setti annað þeirra niður, hitt geigaði en Hattarmenn náðu boltanum. Clark fékk skot upp við körfuna og hefði jafnað hefði það farið ofan í. Það gerði það ekki. Í staðinn fengu gestirnir boltann, brotið var á þeim og hinn reyndi Óðinn Ásgeirsson fór á vítalínuna.

Seinna skot hans fór ofan í en Hattarmenn áttu enn möguleika á að jafna með þriggja stiga skoti. Minnugir fyrri afreka Clarks lögðu Þórsarar allt kapp á að stöðva hann. Hann reyndi samt tvö þriggja stiga skot en hvorugt fór ofan í og tíminn rann út þótt boltinn væri í höndum Hattarmanna.

„Við vorum með tvo nýja leikmenn í kvöld sem eru að aðlagast leikskipulagi okkar. Pólverjinn náði einni æfingu, Kaninn tveimur, þannig ég vissi að þetta yrði stirt. Við eigum samt helling inni,“ sagði Björn Einarsson, þjálfari Hattar, eftir leikinn.

„Við vorum alltof góðir við Þórsara í fyrri hálfleik. Við fengum ekki nema sjö villur. Það vantaði alla baráttu og hjálp í vörninni en hún kom í lokin. Við gefumst ekki upp þótt við höfum tapað átta leikjum í röð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.