Skip to main content

Norðurljósablús í uppsiglingu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. feb 2009 21:40Uppfært 08. jan 2016 19:19

Blúshátíðin Norðurljósablús verður haldin í fjórða sinn á Höfn í Hornafirði dagana 5. til 7. mars næstkomandi. Það er Hornfirska skemmtifélagið sem stendur að vanda fyrir hátíðinni.

norurljsabls_vefur.jpg

Sigurður Mar Halldórsson segir sjaldan hafa verið meiri blús í íslensku samfélagi en einmitt um þessar mundir.  ,,Fólk hefur í gegn um árin notað blúsinn til að syngja sig frá erfiðleikunum og gleyma stað og stund í tónlistinni og þannig verður það á Norðurljósablús.  Til þess að gefa sem allra flestum tækifæri á að finna blústaktinn í hjartanu verður frítt inn á alla tónleika hátíðarinnar

 

Blúsað um allan bæ

Aðal tónleikarnir hvert  kvöld hátíðarinnar verða á Hótel Höfn.  Eftir þá verður blúsað samtímis á þremur stöðum í bænum, Hótel Höfn, Kaffi Horninu og Veitingahúsinu Víkinni.  Þannig geta gestir gengið milli staða og hlustað á margskonar blús.

  

32 blúsmenn og konur í níu hljómsveitum

Sveitirnar sem koma fram á hátíðinni eru B-Sig frá Reykjavík,Guðgeir Björnsson ásamt hljómsveit frá Egilsstöðum, Pitchfork Rebellion frá Húsavík og Vax frá Egilsstöðum.  Tvö hornfirsk bönd leika á hátíðinni, Mæðusveitin Sigurbjörn og Hulda Rós og rökkurbandið. Einnig kemur saman á ný gamalt húsband úr Sindrabæ frá 1968 og leikur á hátíðinni og kalla þeir sig Blúsvíkingana.  Þá eru ótaldir feðgarnir Guðmundur og Örn Elías sem betur eru þekktir sem Mugison og Papa Mug en þeir munu skemmta matargestum á Humarhöfninni.

Að sjálfsögðu verður blúsdjamm á hátíðinni þar sem allir geta fengið að taka í hljóðfæri eða syngja og oft hefur myndast einstök djamm stemmning á Norðurljósablús.

  

Hornfirska skemmtifélagið

Hornfirska skemmtifélagið hefur veg og vanda að Norðurljósablús í samstarfi við veitingamenn og ferðaþjónustufólk á Hornafirði.  Félagið hefur hlotið  Menningarverðlaun Hornafjarðar og er styrkt frá Menningarráði Austurlands. Önnur verkefni Skemmtifélagsins eru að standa fyrir tónlistardagskrá á haustmánuðum ár hvert og þar eru það hornfirskir skemmtikraftar sem stíga á stokk.  Hornfirska skemmtifélagi er einn af stofnendum Ferðaþjónustuklasa Hornafjarðar, Ríki Vatnajökuls ehf," segir í fréttatilkynningu.

  

Á meðfylgjandi mynd er Hulda Rós Sigurðardóttir ásamt hluta af Rökkurbandinu.