Norðfjarðarsaga II að koma út í tveimur bindum

Norðfjarðarsaga II kemur út snemma í aprílmánuði. Þessi hluti sögunnar fjallar um tímabilið 1895-1929. Upphaf umfjöllunarinnar miðast við það þegar Nes í Norðfirði var löggiltur verslunarstaður en lokin markast af því þegar Neskauptún öðlaðist kaupstaðarréttindi. Kaupstaðarréttindin tóku gildi hinn 1. janúar 1929 og eru því liðin rétt 80 ár frá þeim tímamótum. Norðfjarðarsaga II er beint framhald Norðfjarðarsögu I sem kom út árið 2006. Höfundur Norðfjarðarsögu II er Smári Geirsson. Það er Bókaútgáfan Hólar sem annast útgáfuna en Steinholt sér um prentun og bókband.

Í tilkynningu segir að Norðfjarðarsaga II sé í raun stórvirki. Verkið er samtals 860 blaðsíður og er því gefið út í tveimur hlutum eða tveimur bindum. Umfjöllunartími þessa hluta sögunnar er svo sannarlega viðburðarríkur en í verkinu er fjallað bæði um þéttbýlið og dreifbýlið við Norðfjörð. Þegar sagan hefst er þéttbýli að myndast á Nesi en í lok verksins er Neskauptún fjölmennasti þéttbýlisstaðurinn á Austurlandi með á tólfta hundrað íbúa. Í verkinu er fjallað um byggðaþróunina, starfsemi sveitarfélaga og sýslunefndar auk þess sem atvinnusögunni eru gerð skil. Hvað atvinnusöguna varðar er lögð áhersla á að greina frá verslun, útgerð, landbúnaði og iðnaðarstarfsemi af öllu tagi. Þá er ritað ítarlega um starfsemi hvalstöðvarinnar í Hellisfirði. Áhrif tækniframfara eru eitt umfjöllunarefnanna og er þá meðal annars getið um tilkomu bíla, símans, útvarps og rafmagns. Samgöngum eru gerð skil og þá sérstaklega póstsamgöngum ásamt því að félagsstarfsemi fær veglegan sess í verkinu. Ítarlega er t.d skrifað um kvenfélagið, ungmenna- og íþróttafélög, verkalýðsfélög og stúkur góðtemplarareglunnar sem voru afar öflugar á umræddum tíma. Menningarlífið fær einnig að njóta sín í sögunni en í því sambandi er meðal annars fjallað um leiklist, hljóðfæraleik, sönglíf, dansleikjahald og bíósýningar. Að endingu er sögu fræðslumála, kirkjusögu og sögu heilbrigðisþjónustu gerð skil ásamt starfsemi Hjálpræðishersins á Norðfirði.

Norðfjarðarsaga II er kaflaskipt verk þannig að það er mjög þægilegt aflestrar. Meginkaflar eru alls 19 og undirkaflar rúmlega 80 talsins. Í verkinu eru um 400 ljósmyndir sem eiga mikinn þátt í að gera það áhugavert. Þá eru einnig birtir uppdrættir m.a. af hvalstöðinni í Hellisfirði og af Nesþorpi árið 1927. Í uppdráttunum af Nesþorpi eru birt nöfn allra íbúðarhúsa í þorpinu og eins getið um þær bryggjur sem þá stóðu uppi.

Fyrirhugað er að halda útgáfuhátið þegar verkið kemur út og verður þá innihald þess kynnt og lesnir upp stuttir kaflar. Eins er ætlunin að bjóða upp á tónlist á hátíðinni. Það þykir vel viðeigandi að minnast með þessum hætti þeirra tímamóta að 80 ár eru liðin frá því að Nes fékk kaupstaðarréttindi.

Norðfjarðarsaga II mun verða seld á útgáfuhátíðinni og í versluninni Tónspili í Neskaupstað auk þess sem hún verður á boðstólum í stærstu bókabúðum. Einnig verður hægt að panta bækurnar hjá Hólum (s. 587-2619 eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.). Verðinu á bindunum tveimur verður stillt í hóf en fullt verð er 17.900 kr. Norðfirðingum býðst hins vegar verkið á 12.900 kr. og mun verða hægt að greiða fyrir það með raðgreiðslum án alls aukakostnaðar.

Enginn Norðfirðingur ætti að láta verk sem þetta framhjá sér fara. Eins munu Austfirðingar allir njóta vel sögu sem þessarar og ásamt þeim sem áhuga hafa á byggðasögu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.