Neytendasamtökin segja gjaldtöku óásættanlega

Nýlega voru samþykkt lög sem heimila neytendum að taka út allt að einni milljón króna af séreignarsparnaði sínum. Lögunum var breytt í meðförum Alþingis á þann veg að nú er ráðherra heimilt að ákveða með reglugerð heimild vörsluaðila (bankar, lífeyrissjóðir) til að innheimta sérstakt gjald vegna umsýslu við útgreiðslu þessa sparnaðar. Þessi breyting kom ekki til skoðunar Neytendasamtakanna eða annarra umsagnaraðila, þar sem henni var bætt inn í eftir að frumvarpið hafði verið sent til umsagnar.

 

12870019.jpg

Á vef Neytendasamtakanna segir að í samningum um viðbótarlífeyrissparnað muni almennt ekki vera að finna heimild til gjaldtöku af þessu tagi, þ.e. neytendur sem hafa tekið út þennan sparnað fyrir aldurs sakir hafa ekki þurft að greiða neitt slíkt gjald. Það er afar eðlilegt enda í mörgum tilvikum búið að greiða ríflega fyrir þjónustu vörsluaðila og kveða margir samningar um viðbótarsparnað á um umtalsverða umsýsluþóknun.

Sú þóknun sem hér um ræðir er því ekki byggð á samningi milli neytanda og vörsluaðila, heldur á lögum, og væntanlega síðar á reglugerð frá ráðherra en sú reglugerð hefur ekki verið gefin út. Þetta úrræði, þ.e. að fá að taka út hluta sparnaðar síns, er ætlað til að aðstoða almenning í þeim fjárhagshremmingum sem nú dynja yfir og því sorglegt ef nýta á þá aðstöðu til að vörsluaðilar geti innheimt sérstakt umsýslugjald, sem ekki hafa verið innheimt þegar inneignin er tekin út vegna aldurs.

Neytendasamtökin eru nú að kanna hvaða vörsluaðilar hyggjast innheimta þetta gjald og hver upphæð þess verður. Jafnframt skora samtökin á ráðherra að nýta sér ekki þessa heimild, þ.e. að setja ekki reglugerð sem heimilar gjaldtöku af þessu tagi, enda má velta fyrir sér hvernig setning slíkrar reglugerðar samrýmist þeim aðgerðum sem núverandi ríkisstjórn hefur boðað til bjargar heimilunum, eða þeim aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn lagði í til að takmarka gjaldtöku fjármálafyrirtækja.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.