„Náttúran skipar risastóran sess í blaðinu“

„Um er að ræða hvetjandi og eflandi tímarit fyrir börn og unglinga sem ýtir undir sjálfstæða hugsun og heilbrigða sýn á tilveruna og náttúruna,“ segir Ágústa Margrét Arnardóttir á Djúpavogi, en fyrsta tölublað barna- og ungmennatímaritsins HVAÐ kemur út í maí.


„Það eru sex ár síðan hugmyndin kviknaði en það var svo í september í fyrra sem ég ákvað að athuga hvort grundvöllur væri fyrir því að gefa það út,“ segir Ágústa Margrét, en áætlað er að tímaritið komi út tvisvar á ári, í maí og nóvember.

 

Útivistin er mögnuð og samveran nauðsynleg
„Náttúran skipar risastóran sess í blaðinu, hún er það mikilvægasta sem við eigum og einn besti leiðbeinandi barna í lífinu. Fjölbreytileiki náttúrunnar er endalaus og við munum gefa henni góð skil. Flóran, fugla- og dýralífið, fjaran, fjöllin og aðrir fjársjóðir sem finnast rétt við dyrakarminn hjá okkur flestum hérlendis verður sett fram á flottan hátt í bland við áhugamál og afþreyingu sem hægt að iðka með mismiklum tilkostnaði, búnað og fyrirhöfn. Auk þess verður sköpun, innsent efni frá börnum, viðtöl og víðtæk landkynning- hvað er hægt að gera, hvar, hvenær og hvernig.

Ég þekki það vel sjálf að nenna stundum alls ekki að fara út. Það sama má segja um börnin mín sem kvarta stundum yfir því að þau hafi ekkert að gera og þeim leiðist. Þetta er hugarfar, hindrun og venja. Ég á oft fullt í fangi með að koma okkur öllum út úr húsi en það er alltaf þess virði,“ segir Ágústa sem á fimm börn.

„Útivistin er mögnuð og samveran er nauðsynleg. Ég notaði veðrið og skort á afþreyingu iðulega sem afsökun fyrir inniveru og í raun eru bara tvo ár síðan ég ákvað markvisst að setja útivist, samveru, meiri sköpun og fleira fjölskylduvænt í forgang. Veðrið er því miður oft á tíðum ömurlegt en því verður ekki breytt. Viðhorfinu til veðursins er hinsvegar hægt að breyta og nú förum við til dæmis stundum í heitt „balabað“ á sundfötunum úti í garði í snjókomu og frosti,“ segir Ágústa Margrét.

 

Skortur á uppbyggjandi efni fyrir börn og ungmenni

Ágústa Margrét segist svo sannarlega ekki standa ein að gerð blaðsins. „Fyrstu skrefin voru að hafa samband við fólk sem ég bæði þekki og þekki ekki neitt, kynna hugmyndina og kanna áhuga á þátttöku. Viðbrögðin fóru langt fram úr vonum og ég hef fengið ráð og dáð frá ótal mörgum sem hefur komið sér afskaplega vel þar sem ég hef enga reynslu af blaðaútgáfu. Ég hef hins vegar óteljandi hugmyndir og trú á þessu, ég veit að það er vöntun á svona efni fyrir ungmenni og það er mér nóg til að halda áfram eins og langt og ég get með þetta.“

Ágústa hefur fengið hóp fólks með sér í lið til þess að sá um sérstaka liði í fyrsta tölublaðinu. „Ævar vísindamaður sem mun skrifa sögu fyrir blaðið, Pálína Ósk Hraundal útivistakennari kynnir fjölbreyttar og skemmtilegar útistundir og samveru, Alda Karen Hjaltalín, Sölvi Tryggvason, Ólafur Stefánsson, Fanney Þórisdóttir og Erna Kristín Stefánsdóttir (Ernuland) verða með hvatningu, sjálfsmynd, leiðtogafræðslu og fleira. Auk þess verða Sólveig Valgerður Sveinbjörnsdóttir og Sara Lynn Schill sem báðar reka ferðaþjónustufyrirtæki með ferða-, náttúru- og áfangastaða umfjöllun.“

Safnar fyrir verkefninu á Karolinafund

Ágústa Margrét segist hafa ákveðið að fjalla um sína lífstílsbreytingu til útivistar og fjölskyldulífið á samfélagsmiðlum til að hvetja aðra en mest af öllu mig sjálfa áfram. „Ég finn það á foreldrum sem fylgjast með okkur að þá vantar hugmyndir og hvatningu til útivstar, bæði fyrir alla fjölskylduna og börnin sín. Ennfremur veit að ég börnin sjálf þurfa þessar upplýsingar beint í æð. Þess vegna vil ég gefa út þetta efni fyrir ungmenni og ég vil hafa það útprentað frekar en á tölvuformi til að gera mitt agnarsmáa spor til að sporna við aukinni skjá notkun," segir Ágústa Margrét sem safnar nú fyrir verkefninu á Karolinafund

Ágústa Margrét vill hvetja áhugasama um að kynna sér málið á heimasíðu HVAÐ, Facebooksíðu tímaritsins eða á Instagram.  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.