,,Nú er Snorrabúð stekkur"

Nú er verið að pakka saman öllu, stóru og smáu, í húsnæði Ríkisútvarpsins á Egilsstöðum, sem nú hefur verið selt eins og fram hefur komið.

ruv_pakkar_saman.jpgÞað má með sanni segja að nú eigi vel við máltækið ,,Nú er Snorrabúð stekkur".  Fréttaritari leit við í dag í fyrrverandi húsnæði Ríkisútvarpsins á Egilsstöðum, þar sem allt iðaði af lífi og lykt af fréttum og dagskrárgerð ilmaði í lofti, löngum og til skamms tíma.  Fréttamenn og annað starfsfólk Ríkisútvarpsins var þar á þönum við dagleg störf og fréttaöflun.

Nú er þar dauflegt um að litast, Heiður Ósk Helgadóttir að pakka saman öllu, stóru og smáu, til sendingar suður í höfuðborg óttans, til Útvarps Reykjavíkur, sem aftur ber nafn með rentu, en flaggaði til skamms tíma á tyllidögum nöfnum eins og ,,Útvarp allra landsmanna" sem nú hljómar eins og argasta öfugmæli í eyrum okkar ,,allra landsmanna".

Í bakhebergi þar sem lítið bar á sat Sigríður Halldórsdóttir fréttamaður við einu tölvuna sem ekki var búið að pakka niður og sýslaði við fréttir.

Ekki fer þó allt suður, handrit og annað ritmál sem telst til menningarlegra verðmæta fer upp á Héraðsskjalasafn og textíllistaverkið sem gefið var Svæðisútvarpinu í árdaga verður fært yfir á næsta vegg, vegginn sem Ríkisútvarpið hefur nú á leigu, í húsnæðinu sem það áður átti.

Torgið sem áður var notað til stærri beinna útsendinga, er nú undirlagt af pappakössum, með öllum helstu innanstokksmunum sem í húsinu voru innpökkuðum, bíður þar suðurferðar. Það er allt hljótt, nema ,,þú kemur svo og sækir sófana þegar þú mátt vera að" er kallað á eftir einhverjum sem fer út með plastpoka fullan af smáhlutum í hendi.  Það er líklega búið að losa sig við og selja sófana líka.

Eina ljósið í myrkrinu er þó að Ríkisútvarpið hefur tekið á leigu hjá nýjum eiganda húsnæðisins, Mánatölvum, þrjú herbergi norðanmegin í húsinu, tækjaherbergið í norðurhorninu, hljóðeinangraða herbergið sem notað var til útsendinga og stúdíóið þaðan sem útsendingum var ætíð stjórnað og er hjarta hússins.  Ekki má heldur gleyma veggnum góða sem geyma mun listaverkið.  Það er lán í ólani að það er þó hægt áfram, enn um sinn, að senda út beint héðan að austan, ef Ríkisútvarpinu liggur lítið við.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.