Mótmælt við skrifstofur HSA

Rúmlega þrjátíu manns efndu til mótmæla fyrir utan skrifstofur Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) á Egilsstöðum kl. 13 í dag. Hópurinn var með mótmælaspjöld, barði saman pottokum, blés í lúðra, fluttar voru ræður og hrópuð andmæli gegn yfirstjórn HSA. Mótmælt var meðferð HSA á Hannesi Sigmarssyni, yfirlækni Heilsugæslu Fjarðabyggðar, en honum var vikið tímabundið frá störfum fyrir um 8 mánuðum og kærður til lögreglu vegna meints misferlis með fé HSA. Varpað var fram að Fjarðabyggð tæki heilsugæslu sveitarfélagsins í eigin hendur.

hs

Hópurinn lagði upp frá Reyðarfirði á hádegi og lagði bílum sínum við heilsugæslustöðina á Egilsstöðum. Þaðan var gengið í hóp yfir götuna að húsi því sem HSA notar undir skrifstofur. Þar kom fram að hópurinn mótmælti þeirri aðför sem gerð hefði verið að yfirlækninum á Eskifirði, fjölskyldu hans og íbúum Fjarðabyggðar.  Mótmælt var þeirri valdníðslu sem í hávegum væri höfð og ekki væri farið að landslögum í einu né neinu. Hópurinn krafðist þess að fá lækninn aftur til starfa og að ekki yrði linnt látum uns svo yrði. Fólkið sem stjórnaði HSA vildi íbúa Fjarðabyggðar en íbúar Fjarðabyggðar vildu stjórn HSA ekki lengur. Hópurinn kvað stjórnina ekki valda starfi sínu og hún brjóti stjórnsýslulög. Enginn vilji hafa svoleiðis fólk í vinnu og hópurinn væri kominn til að reka stjórnina. Ef hún hætti ekki sjálfviljug kæmi hópurinn aftur síðar og bæri stjórnina út. Yfirstjórnin var beðin um að skammast sín og tilkynnt að hún væri rekin.

 

,,Við erum fulltrúar fleiri hundruð manna, við sem mætum hér á svæðið. Við erum búin að afhenda ráðherra tvisvar sinnum undirskriftir rúmlega 800 hundruð íbúa í hvort skipti. 800 íbúa í Fjarðabyggð sem hafa skorað á heilbrigðisráðherra að stöðva þessa óáran sem hefur gengið yfir okkur,“ sagði Björn Grétar Sveinsson m.a. í ávarpi til hópsins. ,,Fimm sinnum erum við búin að fá niðurstöðu frá hinum ýmsu embættum um að ekki sé ástæða til að hafast frekar að eða til að höfða mál á hendur okkar ágæta yfirlækni. Við þurftum ekki fimm niðurstöður. Við vissum að þetta fólk sem um er að ræða er ekki þjófar þó að þau hafi verið borin sökum sem þjófar og fleira. Það er þannig að við hljótum að standa frammi fyrir því að sú niðurstaða geti komið í þetta mál að Fjarðabyggð taki einfaldlega sína heilsugæslu í eigin hendur. Við getum ekki notast við svona stjórnun eins og hér er.“

 

Björn Grétar talaði um að gífurleg sóun á fjármunum hefði átt sér stað með málarekstrinum og vildi meina að sú upphæð væri ekki undir 70 milljónum króna. Tveir læknar væru búnir að vera á launum frá því yfirlækninum var vikið tímabundið. Annar læknir, Sigurgeir, hefði líka verið rekinn, í barnsburðarfríi eða feðraorlofi vegna þess að hann væri ekki þóknanlegur stjórn HSA. ,,Við skiljum einfaldlega ekki hvað um er að vera og útilokað er að átta sig á þessari hermdaraðgerð sem hér er á ferðinni og flokkast undir einelti. Ég ákæri stjórnendur HSA hér og nú fyrir stjórnsýslulagabrot, ekki eitt, heldur tvö. Fyrir að dæma manninn, þ.e. Hannes, sekan, áður en dómur hefur fallið eða rannsókn hefur farið fram. Það er klárt að í stjórnsýslulögunum er þetta brot. Ég skora hér með á stjórn HSA að höfða mál á hendur mér fyrir að fullyrða þetta.“

 

Björn Grétar margítrekaði að íbúar Fjarðabyggðar myndu aldrei sætta sig við að núverandi stjórn HSA sæti áfram, alveg sama hvernig mál yfirlæknisins myndi enda.

 

Starfsfólk HSA var hvatt til að koma út og hlýða á það sem hópurinn hefði fram að færa. Aðeins var einn starfsmaður í húsinu, ung kona sem kom út til að athuga hvað gengi á. Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri HSA var sagður hafa farið með flugi til Reykjavíkur nú í morgun. Enginn fulltrúi HSA kom að máli við hópinn í dag.

 

Hópurinn boðið frekari aðgerðir, kveikti að því búnu á reykblysum og hrópaði slagorð, en fór svo til síns heima.

-

Myndir/SÁ

hs

 

 

 hs

 

 

 

 hs

hs

 

 

 

ha

 

 

 

 

hs

 

 

hs

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.