Mótmæla því að Breiðdalsheiði verður ekki mokuð í vetur

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps mótmælir harðlega þeirri þjónustuskerðingu sem fellst í niðurskurði Vegagerðarinnar í vetrarþjónustu.  Samkvæmt þeim eru þjónustudagar á þjóðvegi 1 yfir Breiðdalsheiði felldir niður, og einungis á að ryðja eitthvað áleiðis inn Breiðdalinn tvisvar í viku. Krafist er endurskoðunar ákvörðunar Vegagerðarinnar.

snjruningur.jpg

Sveitarstjórn gerir sér fulla grein fyrir þeirri erfiðri stöðu sem ríkissjóður er í.  En hins vegar er með ólíkindum það hugarfar að til þess að greiða reikninginn eftir fyllerí síðustu ára sé réttast að skerða þjónustu í byggðarlagi sem sannarlega var aldrei boðið að því veisluborði.

Hér í Breiðdal snýst þetta ekki einungis um mokstur yfir Breiðdalsheiði heldur einnig um þá íbúa sveitarfélagsins sem búa inn í dalnum og eiga rétt á þjónustu eins og aðrir.  Börn þurfa að komast í skóla, mjólk þarf að sækja í kúabú og íbúar þurfa að komast til vinnu svo dæmi séu nefnd.  Því er ljóst að með ákvörðun um niðurskurð í vetrarþjónustu er verið að færa kostnað við nauðsynlegan snjómokstur frá ríkisvaldinu yfir á sveitarfélög. 

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps krefst þess að framangreind ákvörðun Vegagerðarinnar verði endurskoðuð og skorar á ráðherra sveitarstjórna- og samgöngumála, ásamt þingmönnum kjördæmisins að beita sér til þess að svo megi verða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.