Minnisvarðar afhjúpaðir um Vesturfarana

Tveir minnisvarðar um fólk sem flutti frá Íslandi til Norður-Ameríku voru afhjúpaðir á Austfjörðum í síðusta haust, annars vegar á Seyðisfirði, hins vegar við Hof í Vopnafirði. Minnisvarðarnir eru gjöf frá átthagafélaginu Icelandic Roots en um 20 manna hópur frá félaginu ferðaðist um landið í tilefni af tíu ára afmæli félagsins.

Félagið Icelandic Roots var stofnað árið 2013 og er átthagafélag í víðum skilningi. Þungamiðja þess er gagnagrunnur um fólk af íslenskum ættum á vefnum icelandicroots.com. Hann einskorðast ekki við fólkið sem flutti vestur um haf heldur líka Íslendinga sem fluttu til Danmerkur og annarra landa. Tæplega 800.000 nöfn eru í grunninum og er áætlað að um 1.000 bætist við í hverjum mánuði.

En félagið leggur áherslu á meira en bara nöfn og ártöl. Inn í grunninn eru komnar myndir af fólki eða fæðingarstað þess auk GPS hnita. Reynt er að afla upplýsinga um líf fólksins og sannreyna þær. Þannig hefur félagið leiðrétt villur í Vesturfaraskránni. Þá birtast reglulegar umfjallanir og sögur um fólkið á síðunni, haldið er úti fréttabréfi og hlaðvarpi.

Ríflega 4000 manns frá Seyðisfirði og Vopnafirði


Icelandic Roots hefur einnig stutt við tengsl milli fólks af íslenskum ættum og Íslands, svo sem með styrkjum til ungmennaskipta og safna um vesturferðirnar, til dæmis Vesturfarasetursins á Vopnafirði. Langflestir félagar eru í Kanada og Bandaríkjunum en töluvert færri hérlendis. Vinnan er meira og minna unnin í sjálfboðaliðavinnu en meðal þeirra sem taka þátt í henni eru Cathy Ann Josephson á Refsstað í Vopnafirði og Hjördís Hilmarsdóttir á Gunnlaugsstöðum á Völlum. Cathy stýrir ættfræðiþjónustu samtakanna og Hördís starfar innan þeirrar deildar.

Cathy og Hjördís unnu einmitt texta minnisvarðanna sem settir voru upp við ferjuhöfnina á Seyðisfirði og Hofskirkjugarði á Vopnafirði. Á þeim eru upplýsingar um Vesturferðirnar. Þar segir að frá Seyðisfirði hafi farið 2700 manns, þar af um 700 Seyðfirðingar, í kjölfar Öskjugoss og kalds vors árið 1876. Þar hafi verið margt vel vinnandi fólk en líka fátæk börn sem gefnir voru farmiðar út í óvissuna.

Frá Vopnafirði er áætlað að um 1400 manns hafi farið á árunum 1873-1911. Veturinn 1873 var sérlega kaldur og það ár fóru fyrstu fjölskyldurnar, meðal annars til Brasilíu. Flest af fólkinu sem fór til Vesturheims kom af Norður- og Austurlandi en einnig víðar.

Halda í ræturnar


Minnisvörðunum var komið fyrir í tengslum við afmælisferð Icelandic Roots en ríflega 20 sjálfboðaliðar samtakanna fóru með í hana. Minnisvarðar voru einnig afhjúpaðir á Sauðárkróki og Borðeyri. Við staðina verða einnig gróðursett tré, gefin frá Vopnafirði. „Þau eru táknræn fyrir ræturnar,“ segir Sunna Furstenau, formaður Icelandic Roots.

„Við vorum 25, allt sjálfboðaliðar. Við fórum um landið í rútu og stoppuðum til að skoða kirkjur og grafreiti. Við vorum með leiðsögufólk sem skiptist á að segja frá landinu, fara með þjóðsögur og rifja upp hvernig lífið var hér áður fyrr.“

Hópurinn ásamt gestum við afhjúpun minnisvarðans á Seyðisfirði. Mynd: Hjördís Hilmarsdóttir

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.