Minjasafn Austurlands, snertisafn með sumarblótum

Margt spennandi er um að vera í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum í sumar. Safnið verður í sumar allt í senn, snertisafn, sumarblót, með sérstakar sýningar og með lengri opnunartíma.

minjasafn_lifandi_safn_odinn2.jpgMinjasafnið er hefðbundið safn með nýstárlega og líflega nálgun til að sem flestir finni eitthvað við sitt hæfi. Grunnsýningin „Sveitin og þorpið“ fjallar um hefðbundna, íslenska sveitasamfélagið og innreið nútímans hins vegar með tilliti til sérkenna svæðisins. Í sumar standa jafnframt yfir sýningarnar „Dauðir rísa ... úr gröfum Skriðuklausturs“ og ljósmyndasýning Þjóðminjasafnsins „Þroski, þrælkun, þrá?“.  


SNERTISAFN:        
Í kjallara Safnahússins hefur verið sett upp snertisafn sem er fyrir alla, unga sem aldna, sem vilja snerta hluti og prófa safngripina.


KVÖLDOPNUN:
Í sumar, það er frá 14. júní til 15. ágúst, verður opnunartími verulega lengdur á safninu. Mánudaga til fimmtudaga verður opið til klukkan 21 á kvöldin og er það gert til að koma til móts við þann fjölda ferðamanna sem koma í Egilsstaði síðla dags til næturdvalar, borða hér kvöldverð og vantar síðan oft einhverja afþreyingu að honum loknum.

SUMARBLÓT:
Á þriðjudagskvöldum á tímabilinu 29. júní til 10. ágúst verður boðið upp á dagskrá fyrir gesti sem kölluð er Sumarblót. Gestir eru fræddir um líf og hefðir Íslendinga áður fyrr á þorranum, fá innsýn í heimkynni fólks, hvernig tekið var á móti þorra og hvaða merkingu sá árstími hafði fyrir marga. Einnig fylgir fróðleikur um þorrablót og gestir læra einfaldan vikivaka. Í lokin er svo boðið upp á hákarl og harðfisk og að því loknu skoða gestir safnið.
Dagskráin hefst kl. 19.30, verð er 1.000 kr. fyrir fullorðna og 600 kr. fyrir börn yngri en 16 ára og ellilífeyrisþega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.