„Mig langar gríðarlega að fara til Marokkó sem fyrst“

Tónlistarkonan Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir var að senda frá sér lagið Strong for you, en það er fjórða lagið á þessu ári. Hún er í yfirheyrslu vikunnar.


„Strong for you er unnið í samvinnu við Birgi Örn Steinarsson og tekið upp hjá Stefáni Erni Gunnlaugssyni snillingi í Stúdíó Bambus. Sigurdór Guðmundsson sá svo um hljómjöfnun í Skonrokk Studios.

Textinn varð til, eins og margir aðrir textar, í kjallaranum í Brekkubæ eina andvökunótt þar. Lagið kom síðan þegar ég og Birgir Örn vorum að semja saman síðasta vor. Lagið fjallar í raun um hversu meðvirkur maður getur orðið þegar maður heldur að ást sé í spilunum. Þetta týpíska vandamál að reyna að fegra hlutina sem eru einfaldlega ekki góðir fyrir mann, láta allt yfir sig ganga og einhvern veginn reynir að gera það besta úr hræðilegu ástandi,“ segir Aldís Fjóla.

Hvað er framundan í tónlistinni? „Framundan eru upptökur á næsta lagi, auk þess sem ég er að halda áfram að semja fyrir plötu sem mun koma út á næsta ári. Auk þess er ég með góðan hóp stórkostlegra tónlistarmanna í kringum minn sem svara kallinu þegar ég finn tíma til að skipuleggja tónleika, sem verður vonandi sem fyrst.“

Fullt nafn: Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir.

Aldur: 36.

Starf: Tónlistarkona,söngkennaranemi, viðskiptafulltrúi,aðstoðarkona og meðeigandi og söngkennari í Söngsteypunni – CVS.

Maki: Alveg makalaus!

Börn: Engin.

Hvaða lag vildir þú að þú hefðir samið? Martha með Tom Waits.

Hvernig koma lög og textar til þín? Það er gríðarlega mismunandi. Lögin byrja oftast sem laglínur í hausnum í hinum ýmsu aðstæðum og þá þarf ég að grípa símann og humma þær inn. Textarnir koma þegar ég sest niður og leyfi mér bara að skrifa allt sem ég er að hugsa um og geri síðan texta upp úr því.

Hvað er tónlist fyrir þér? Tónlist fyrir mér er tjáningarform, hvort sem ég hlusta eða flyt hana. Þú getur alltaf fundið eitthvað lag til að lýsa því hvernig þér líður og fengið útrás. Tónlist er bara gjörsamlega málið í öllum aðstæðum.

Einhver augnablik ævi þinnar sem þú vildir endurupplifa? Allar kúrustundirnar með mömmu og pabba.

Mesta undur veraldar? Tjah.. ég?

Ef þú gætir boðið fimm manneskjum í matarboð, lifandi eða látnum, hverjir væru það? Mömmu, pabba, Meryl Streep, Adele og Benedict Cumberbatch. Það væri hressandi matarboð með Brekkubæjarhrygg í eldhúskróknum í Brekkubæ.

Hvað er það sem skiptir mestu máli í lífinu? Heilsan mín og fólkið mitt.

Hvað er í töskunni þinni? Bullet journal, pennaveski með litríkum pennum og lyklar.

Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Hann einkennist af mikilli vinnu, skipulagningu, samskiptum og að púsla saman öllu og endar síðan oftast á að kenna söng og leggjast svo upp í besta sófa í heimi heima hjá mér.

Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Hreinskilni og góðan húmor fyrir sjálfum sér.

Hver er þinn helsti kostur? Ég er gríðarlega þrjósk!

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Gefa út vínýlplötu með mínu efni, fara í aðra reisu með Skottunni og fara til útlanda með pabba mínum.

Duldir hæfileikar? Ég er gríðarleg textavél sem kann flest alla texta og einstaklega góð að ná í lappir á lömbum í sauðburði.

Mesta afrek? Að gefast ekki upp.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Fyrir utan mömmu og pabba væri það amma mín í Sæbergi. Stórkostleg kona sem lét ekkert stöðva sig.

Hver er þinn helsti ókostur? Ég er gríðarlega þrjósk.

Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Klárlega að vaska upp, ég er bara ekki sérstaklega góð í því og hef ekki metnaðinn til að laga það.

Draumastaður í heiminum? Mig langar gríðarlega að fara til Marokkó sem fyrst.

Hver er tilgangurinn með þessu jarðlífi? Að láta drauma sína rætast.

Hvaða bíómynd hefur þú séð oftast? Dumb&Dumber og nú The Greatest Showman.

Hvað er rómantík? Litlu hlutirnir sem framkalla bros.

Hver er þín fyrsta æskuminning? Ég að fara sem Rauðhetta niður tún til ömmu og afa með krækiberjasaft og nammi fyrir ömmu.

Hvað er framundan um helgina? Ég er að fara á dásemdarstaðinn Drangsnes til að kenna söng, slaka á og skipuleggja næstu skref í tónlistinni.

 

Ljósmynd: Ingibjörg Torfadóttir.

Hægt er að fylgjast nánar með Aldísi Fjólu á; 
Spotify: Aldís Fjóla
Facebook: https://www.facebook.com/aldisfjola/
Soundcloud: https://soundcloud.com/aldisfjola
Youtube: https://www.youtube.com/user/aldisin43

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.