„Mér fannst asnalegt að lífið héldi áfram yfirhöfuð“

Erla Björk Jónsdóttir, guðfræðingur og starfandi héraðsprestur, segist hafa þurft að glíma við trúna á erfiðum tímum, en þrátt fyrir að vera aðeins 38 ára gömul eru sjö ár síðan hún varð ekkja og einstæð tveggja barna móðir. Erla er í ítarlegu viðtali í Austurglugganum sem kemur út í dag.



Erla kynntist manninum sínum, Þormóði Geirssyni, sumarið 2002 og segir hún þau bæði hafa vitað að þeim var ætlað að vera saman, en þau hófu ánægjulegt samband og áttu saman tvær dætur.

Október 2009 er mánuður sem mun aldrei líða Erlu úr minni.

„Við vöknuðum upp eina nóttina og Þormóður var með ofboðslegan höfuðverk. Ég hafði sjálf veikst, en þarna var svínaflensan í gangi og við héldum að við værum bara bæði að fá hana. Hann kvartaði undan vanlíðan og datt niður inni á baðherbergi stuttu síðar. Hann fékk heilablóðfall og hefur líklega verið með æðagúlp í höfðinu. Við tóku fimm dagar á gjörgæslu og þrátt fyrir að allir áttuðu sig á því að þetta væri alvarlegt þá var enginn undir það búinn að þetta myndi enda svona, hann var aðeins þrítugur og fullfrískur maður.“


Man lítið frá þessum tíma

Erla segir tímann sem tók við hafa verið alveg skelfilegan. „Að horfa upp á þennan stóra og sterka mann sem var alger klettur, algerlega sigraðan. Í rauninni tók þetta aðeins þrjá daga og svo fengum við tvo til þess að taka erfiðar ákvarðanir, eins og að taka úr sambandi og ákveða hvað ætti að gera í sambandi við líffæragjöf. Sem betur fer vorum við nýbúin að ræða það eftir umfjöllun í útvarpinu og vorum sammála um að við vildum gefa líffæri ef til þess kæmi en það auðveldaði mína ákvörðun gífurlega sem er líklega með þeim síðustu sem maður vill taka í lífinu.

Í rauninni man ég voða lítið eftir þessum tíma, það eru varnarviðbrögð heilans sem meðtekur ekki svona mikið á skömmum tíma. Man helst eftir ákveðnum atriðum sem hafa líka elt mig og truflað hugann en ég glímdi við mikla áfallaröskun eftir þetta sem ég hef unnið markvisst úr.

Það var fáránlegt og í rauninni bara alveg út í hött að jarða manninn sinn og alveg rosaleg áskorun að standa í lappirnar. Að sitja á fremsta bekk í kirkjunni með börnin sín en sú yngri var mjög óörugg og ég sagði henni söguna af geitunum þremur allan tímann meðan ég var sjálf alveg að tapa áttum. Þar sem ég gekk á eftir kistunni hugsaði ég að þetta gæti ekki verið að gerast og mig langaði helst að henda henni í gólfið og hrista hann við: nú vaknar þú bara vinur minn, þetta er orðið ágætt.

Mér fannst asnalegt að lífið héldi áfram yfirhöfuð því fyrir mér stoppaði það þegar hann dó. Ég man eftir að hafa hugsað: ha, strætó að ganga, og einnig í kringum jólin að allir væru að halda jól: hvað eruð þið að gera, vitið þið ekki að maðurinn minn dó?“

Viðtalið í heild sinni má lesa í Austurglugganum sem kemur út í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.