Matargúrúinn sem varla kunni að sjóða kartöflur

Laufey Rós Hallsdóttir, matartæknir á Eskifirði, hefur undanfarin misseri vakið athygli fyrir ástríðu sína fyrir íslenskum matarhefðum. Mataráhuginn var henni þó ekki algjörlega í blóð borinn.

„Þessi áhugi kom ekkert til fyrr en eftir að ég eignaðist börnin mín. Fram að því má eiginlega segja að ég hafi varla kunnað að sjóða kartöflur. Þá þurfti ég bara að fara að bjarga mér með mat fyrir fleiri en mig og þetta gamla, góða og sígilda reyndist mér alltaf vel.

Sjálf ólst ég upp við gamla matinn heima hjá foreldrum mínum, þar var oft sett í tunnur og þvíumlíkt. Það fannst mér alltaf góður matur en fann alltaf hjá mér þörf til að fikta örlítið í þessum uppskriftum og breyta lítillega.

Ég fór þá fljótlega að kaupa allar matreiðslubækur sem ég fann. Fékk algjöra dellu fyrir þeim bókum og las í þaula og á nú svo mikið af slíkum bókum að ég þarf eiginlega stærra húsnæði til að koma þeim fyrir,“ segir Laufey Rós í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Áhuga sínum hefur hún deilt með landsmönnum í gegnum matarsíður á vefnum og samfélagsmiðla. Hún hefur líka vakið lukku sem matráður hjá hjúkrunarheimilinu Hulduhlíð en hún færði sig yfir til Fjarðaveitinga um áramótin.

Hún segir tilnefninguna sem ein af manneskjum ársins hafa komið sér mjög á óvart. „Þettta kom eins flatt upp á mig og hugsast gat. Ég ætla samt ekkert að kvarta því þetta var skemmtilegt og líklega ekkert leiðinlegt að hafa þetta á ferilskránni þegar fram líða stundir.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.