Listamaðurinn í pizzabakstrinum á The Filling Station

Haukur Óskarsson, Arnold Mulder og Keith Preston tóku í fyrra við rekstri matsölustaðarins The Filling Station á Seyðisfirði og grænmetisinnflutningi undir merkjum Austurlands Food Coop. Haukur er uppalinn Seyðfirðingur og rak áður Skaftfell bistro. Hann flutti heim í Covid-faraldrinum eftir 20 ár í Hollandi við listsköpun og matseld.

„Ég var búinn að vera að horfa heim áður, en síðan var ekkert að gera úti í faraldrinum en nóg hér. Ég vann fyrst á Hótel Öldunni áður en mér bauðst Skaftfell,“ segir Haukur.

Hann var nýbyrjaður með bistróið þegar aurskriðurnar féllu í desember 2020. Fyrsta skriðan sem eitthvað kvað að lenti á Skaftfelli. „Þetta var algjör steypa. Staðurinn hálffylltist af drullu, það tók tíma að þrífa hann. Síðan voru allir ísskápar og birgðir ónýtar. Margt af því hafði verið í skúr fyrir aftan húsið,“ rifjar hann upp.

Haukur og Keith fengu aðstöðu á hótelinu, til að elda fyrir Seyðfirðinga sem gátu ekki enn snúið heim til sín, til að halda áfram samfélagsmálsverðum sem farið höfðu af stað í Herðubreið. „Þetta var flókinn tími.“

Að koma upp vinnustofunni


Haukur er uppalinn Seyðfirðingur og lærður listamaður sem starfaði í veitingageiranum í Hollandi áður en hann kom aftur heim. „Ég vann á leikhúsbar í Groningen í tíu ár. Ég var úti í Hollandi til að búa til myndlist en eldaði til að tryggja að til væru peningar. Hugmyndin var síðan að koma heim til að gera meira af list frekar en að reka pizzaríur.“

Hann ætlaði að halda áfram í listinni af krafti á Seyðisfirði en fyrrnefndir atburðir töfðu það. „Að vera með vinnustofu í Hollandi var dýrt og því þurfti ég oft að flytja. Hugmyndin var að koma mér upp vinnustofu hér en það hefur ekki verið hlaupið að því að finna húsnæði og ekki bættu skriðurnar úr. Núna er ég búinn að kaupa mér hús þannig að ég er aðeins að byrja að koma mér fyrir með vinnuna.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.