Leyfi til búfjárhalds á Stórhóli afturkallað

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti samhljóða á fundi sínum 2. júlí að svipta ábúendur á bænum Stórhóli í Álftafirði leyfi til búfjárhalds. Er leyfið afturkallað með þriggja mánaða fyrirvara frá og með næstu mánaðarmótum. Matvælastofnun kærði slæman aðbúnað og vanfóðrun sauðfjár í vor í kjölfar alvarlegra athugasemda frá héraðsdýralækni og búfjáreftirlitsmanni um ástand fjár, fóðrunar og húsa. Ábúendur á Stórhóli halda nokkuð á annað þúsund fjár.

djpavogshreppur.gif

Úr fundargerð Djúpavogshrepps 2. júlí 2009:

 

Stefaníu Lárusdóttur og Jónasi Kjartanssyni á Stórhól stóð til boða að mæta á fundinn. Stefanía forfallaðist á síðustu stundu og tilkynnti að Jónas sæi sér ekki heldur fært að mæta. Eftirt. atriði voru engu að síður rædd og afgr., enda liðurinn á dagskrá skv. fundarboði:

a)    Munnleg ósk Stefaníu að sveitarstjórn beiti ekki ákvæðum 3. gr. búfjársamþykktar nr. 399/2006 eða vinni ekki að því á annan hátt að leggja búskap á Stórhól alveg af. Kveðst hún reiðubúin til samninga þar að lútandi, þar sem m.a. væri kveðið á um hámarkstölu búfjár.

b)    Afrit bréfs Gísla M. Auðbergssonar, lögm. ábúenda, dags. 25. júní 2009, til héraðsdýralæknis, en þar koma fram áform ábúenda að draga saman í fjölda búfjár. Í bréfinu er bent á sem helstu rök að ábúendur hafa fengið sér til fulltingis  búfjárræktarráðunaut og búfræðing sem eru að vinna að því að aðstoða viðkomandi við endurskipulagningu á búskap að Stórhól.

c)    Samningur milli ábúenda og Djúpavogshrepps, dags. 29. des. 2006, sem miðaði m.a. að því að ábúendur á Stórhól fækkuðu eigi síðar en haustið 2007 fé niður í þann fjölda sem óbreyttur húsakostur á Stórhól var talinn rýma, eða í 600 kindur. Að mati sveitarstjórnar hefur sá samningur verið þverbrotinn og var farið yfir það á fundinum.

d)    Fjallskil á vegum ábúenda, en fyrir liggur að mati sveitarstjórnar að þau hafa ekki verið innt af hendi sem skyldi, sbr. bókun hennar í lið 2 b) á fundi 12. feb. 2009, en þar var m.a. ákveðið að segja ábúendunum upp afnotum á svonefndum Oddum og upprekstrarheimild á landi sveitarfélagsins á svonefndri Tungu.

e)    Bókun í lið 2 a) í fundargerð frá 11. júní 2009, en þar var oddvita og sveitarstjóra falið að vinna að því að höfðu samráði við lögmann sveitarfélagsins að nýta þau úrræði, sem sveitarfélagið hefur í málum eins og því, sem um ræðir, m.a. niðurlagsákvæði 3. gr. búfjársamþykktar Djúpavogshrepps nr. 399/2006, sbr. lög nr. 103/2002 Einnig bar á góma bókun sveitarstjórnar frá 2. júní 2009 um meint brot á dýraverndarlögum og kæru frá Matvælastofnun, sem nú er til rannsóknar hjá lögreglustjóraembættinu.

f)    Farið var yfir neðangreinda bókun frá Búnaðarsambandi Austurlands:

„Í framhaldi af umræðu um málefni Stórhóls í Álftafirði á stjórnarfundi BsA þann 11. júní s.l. var eftirfarandi ályktun samþykkt. Stjórn hvetur sveitarfélög til að draga lærdóm af málinu og beita hörðum viðurlögum, miklu fyrr en raun var í þessu máli. Heimildir búfjáreftirlits og dýralækna eru takmarkaðar og skaðinn  er mikill þegar svona er komið. Stjórnin óttast áhrif slíkra mála á ímynd dilkakjötsframleiðslu bæði innanlands og utan, því nú á tímum ljósvakamiðla getur markaður skaðast um allan heim vegna fréttaflutnings eins og þessa. Jafnframt óskar stjórnin þess að Djúpavogshreppur og  Matvælastofnun sjái  til þess að málum verði komið í fullkomlega ásættanlegt ástand strax eða viðkomandi gert að hætta búskap ella.“

g)    Fyrir fundinum lá svohljóðandi erindi, undirritað af Stefaníu Lárusdóttur, ódags, en mótt. 2. júlí 2009:

„Ég undirrituð óska eftir áframhaldandi afnotum á Oddatúnum sem Stórhóll hefur nytjað í um 30 ár, enda hef ég látið rækta og þurrka hluta af landinu undanfarin ár (síðast í fyrra var gerð nýrækt þar). Einnig hafa verið endurnýjaðar girðingar þar og byrjað var síðastliðið haust á girðingavinnu sem átti að klára nú fyrir haustið.“

 

Erindin tekin fyrir og afgreidd sem hér greinir:

I)    (liður a) hér að ofan) Erindi hvort beita eigi ákvæðum samþykkta og laga um búfjárhald og eftir atvikum laga um dýravernd. Farið var yfir málið með Bjarna G. Björgvinssyni, lögmanni sveitarfélagsins og einnig kynnt álit lögm. Samb. ísl. sveitarfélaga, sem leitað var eftir vegna málsins.

Tillaga að ályktun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps lýsir yfir þungum áhyggjum af búfjárhaldi ábúenda að Stórhóli í Álftafirði sem nú sæta kæru Matvælastofnunar vegna illrar meðferðar á skepnum.  Vegna langvarandi samskipta sveitarstjórnar og ábúenda vegna ítrekaðra brota ábúenda á 20. gr. dýraverndarlaga nr. 15/1994 sbr. 18. gr. laga um búfjárhald nr. 103/2002 og 3. gr. sbr. 18. gr. samþykktar fyrir búfjárhald í Djúpavogshreppi nr. 399/2006, sér sveitarstjórn sig knúna til þess að beita ákvæði lokamálsliðar 3. gr. samþykktar um búfjárhald í Djúpavogshreppi og svipta ábúendur leyfi til búfjárhalds í sveitarfélaginu með þriggja mánaða fyrirvara talið frá með næstu mánaðamótum.  Leyfi ábúenda til búfjárhalds í sveitarfélaginu fellur niður 31. október 2009. 

Tillagan borin upp og samþ. samhljóða.

 

II)    (liður g) hér að ofan) Erindi varðandi svonefnda Odda: Þar sem sveitarstjórn lítur svo á að forsendur til búfjárhalds á Stórhól séu áfram hinar sömu, sbr. mál það sem nú er upp vegna búfjárhalds á bænum ákveður hún að halda fast við fyrri ákvörðun sína í lið 2 b) á fundi 12. febrúar 2009 þar sem ábúendum á Stórhól var sagt upp afnotarétti á svonefndum Oddum og einnig sagt upp upprekstrarheimild í landi Djúpavogshrepps í Markúsarseli og Tunguhlíð. Samþykkt samhljóða að hafna erindinu.

 

III)    Samþykkt samhljóða að fela sveitarstjóra að setja í gang ferli skv. 9. gr. samnings frá 29. des. 2006, sem miðar að því að innheimta eldri áfallinn kostnað við búfjáreftirlit, sem fram kemur í 8. gr. sama samnings.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.