Leikfélag Fljótsdalshérað setur Pétur og úlfinn á svið undir berum himni

petur_og_ulfurinn_lf_0057_web.jpg

Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir á morgun hið sígilda leikverk Pétur og úlfinn í útileikhúsinu í Selskógi í leikstjórn Péturs Ármannssonar. Stærsta áskorunin á æfingatímabilinu hefur verið að glíma við veðurfarið sem menn hafa minni stjórn á en inni í hefðbundnu leikhúsi.

 

„Annað hvort er alltof heitt og leikarana svimar af vatnsskorti eða þeir eru blautir í gegn,“ segir Pétur en bætir við að ekki hafi rignt nema einu sinni á sex vikna æfingatímabilinu. „Við biðjum til veðurguðanna að það verði þurrt fram yfir frumsýningu.“

Pétur segist hafa unnið mikið með líkamlega tjáningu leikaranna. Í uppfærslunni sé líkamlegu leikhúsi blandað saman við trúðaleikhús og unnið mikið með sambandið við áhorfendur.

„Hræðslan kemur ekki bara fram í andlitinu heldur líka höndum, fingrum og líkamanum öllum. Við erum að fara aftur í ræturnar á trúðaleikhúsi þegar menn gátu ekki notað orð til að tjá sig.“

Inn á milli koma upp vandræði milli leikara sem þarf að leysa á staðnum. Í einni senunni neitar öndin til dæmis að láta éta sig nema að uppfylltum ströngum skilyrðum, til dæmis þeim að Logi Bergmann sé á gestalistanum. „Þetta eru alls konar dívur sem vilja eitt og annað. Þeirra trúðar sem hafa stóra drauma og vilja ekki miklar hömlur.“

Leikarahópinn skipa níu stelpur á táningsaldri. Sumar þeirra stunda leiklistina í gegnum Vinnuskóla Fljótsdalshéraðs og ein kemur frá Eskfirði daglega á æfingar. „Þetta er jafnvel meiri vinna en í vinnuskólanum,“ segir Pétur.

Hann kann ekki skýringar á því hvers vegna strákana skorti. „Leiklistin virðist kvenlægari hjá yngri krökkum – og reyndar fram eftir aldri. Þegar ég fór í inntökupróf í Listaháskólanum voru fjórar stelpur á móti hverjum strák.“

Pétur og úlfurinn er fyrsta stóra verkið sem Pétur leikstýrir. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég ræð öllu, skipa öllum fyrir, sef ekki á næturnar og svona.“

Hann er þakklátur Leikfélaginu fyrir að hvetja unga leikara áfram. „Ég er rosa ánægður með að Leikfélagið vilji vinna með krökkum og ala upp unga leiklistarkynslóð sem mun leika og mæta í leikhús í framtíðinni.“
 
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á Facebook-síðu hennar. Miðapantanir eru í síma 867-3272 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
 
petur_og_ulfurinn_lf_0005_web.jpgpetur_og_ulfurinn_lf_0012_web.jpgpetur_og_ulfurinn_lf_0016_web.jpgpetur_og_ulfurinn_lf_0026_web.jpgpetur_og_ulfurinn_lf_0029_web.jpg
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.