Kennir zúmbatíma í gegnum fjarfundabúnað

Zúmbakennarin Flosi Jón Ófeigsson frá Eyvindará á Fljótsdalshéraði er meðal þeirra sem bjóða upp á líkamsrækt í gegnum fjarfundabúnað á meðan samkomubanni stendur. Hann segir ánægjulegt að geta sameinað iðkendur frá Austurlandi, Reykjavík og útlöndum í einu undir Eurovision-tónum.

„Ég er með aðstöðu í bílskúr hjá vinkonu minni. Ég notast við fjarfundabúnað en byggi samt tímann upp eins og ég væri með fólkið í salnum

Ég spila Eurovision-lög og skreyti salinn með fánum til að skapa stemmingu“ segir Flosi sem í dag kennir sinn fjórða tíma í gegnum fjarfundabúnað.

Margir zúmba-kennarar hafa notast við tæknina að undanförnu og segir Flosi þeim hafa fjölgað eftir því sem betur kom í ljós að samkomu- og útgöngubönn víða um heim myndu vara lengur en útlit hefði verið fyrir í fyrstu. Það sé eðlilegt, enda séu sumir kennarar með þjálfunina sem sitt aðalstarf. Þeir hafa þó farið misjafnar leiðir, en í zúmba-kennslunni þarf meðal annars að huga að höfundarréttarreglum um tónlistina sem notuð er.

Flosi hefur undanfarin ár kennt zúmba í Reebok fitness í Reykjavík á veturna en á Egilsstöðum á sumrin, jafnframt vinnu sinni á Hótel Eyvindará. Hann segir ánægjulegt að geta í fjarfundatímunum sameinað þessa tvo iðkendahópa. „Það er gaman að sjá öll þessi andlit saman,“ segir hann.

Og iðkendurnir koma víðar að. „Það mæta nokkrir kunningjar úr Eurovision-vinahópnum því ég spila svo mikla tónlist úr keppninni. Það er mikill metnaður hjá sumum sem vakna fyrr út af tímamismun.“

Iðkendur fylgja sínum uppáhaldskennurum

Flosi byrjaði á að bjóða upp á frían tíma sem um 100 manns mættu í. Í lok þess tíma fór hann þá leið að kanna hverjir hefðu áhuga á að borga fyrir næstu tíma. Um þrjátíu manns hafa mætt í þá tíma sem hann hefur kennt síðan. Stakur tími kostar 500 krónur og þrír saman 1200 krónur, sem er töluvert lægra en í líkamsræktarstöð.

Aðspurður um greiðsluvilja fólks bendir Flosi á að fyrirkomulagið sé ekki ósvipað því að iðkendur fylgi þeim kennara sem þeir haldi upp á eftir því hvar hann sé með tíma. „Þetta virkar enn, að minnsta kosti meðal líkamsræktarstöðvarnar eru lokaðar.“

Flosi segir óvíst hve lengi hann haldi nettímunum áfram, þeir verði alla veganna út næstu viku. „Þetta er búið að gera mikið fyrir mína geðheilsu í þessu ástandi.“

Aðrir hlutir mikilvægari en söngvakeppnin

Sem fyrr segir notar Flosi mikið af lögum úr Evrópusöngvakeppninni í tímum sínum, enda forfallinn aðdáandi keppninnar og meðal forkólfa Félags áhugamanna um keppnina hérlendis. Flosi hefur sótt allar keppnirnar frá árinu 2010 og átti bókaðan miða í Rotterdam í maí. Henni var aflýst eins og ýmsum öðrum viðburðum vegna faraldursins.

„Það verður skrýtið að vera heima í maí. Þetta er fyrir mig eins og þá sem bíða eftir stórmótum í fótbolta, mann hlakkar alltaf til. Þetta var smá sorg fyrst eftir að keppninni var aflýst en hún gleymdist hratt því núna eru aðrir hlutir í lífinu mikilvægari.“

Og aðdáendur keppninnar hafa eins og aðrir notað fjarfundabúnað til að skemmta sér saman. „Við höfum horft á gamlar keppnir í gegnum fjarfundabúnað og síðan er kosið. Um daginn var horft á keppnina frá 1997 og Páll Óskar endaði í fjórða sæti í kosningunni, sem var með fólki úr öllum heiminum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.