Kannski byrjunin á skemmtilegustu Hammond-hátíð Djúpavogs

„Ég ætla ekkert að fullyrða neitt en það er ákaflega mikið af brottfluttum íbúum sem eru mættir hingað á hátíðina og vonandi er það ábending um að það sé eitthvað spennandi heim á ný að sækja,“ segir Ólafur Björnsson, einn skipuleggjenda Hammond-hátíðar á Djúpavogi þetta árið.

Með fullri virðingu fyrir mörgum ágætum hátíðum á Austurlandi er Hammond-hátíðin nú, sem hófst utandagskrár í morgun og stendur framyfir helgina, að trekkja sannarlegar kanónur í tónlistarbransanum. Ragga Gísla, 200 þúsund naglbítar og hljómsveitin Hjálmar svo fátt eitt sé nefnt að því sem styttir fólki stundirnar næstu dægrin.

Sjálfur telur Ólafur að stemmning sé fyrir hátíðinni sem nær langt út fyrir Djúpavog sjálfan og það er í takt við það sem ætlunin er með þessari tiltölulega „frægu“ hátíð í landinu. Hugmyndin ekki aðeins að skemmta heimafólki og brottfluttum heldur og þeim er sjaldan eða aldrei hafa heimsótt bæinn. Það kannski ekki einfalt því fáar, ef nokkrar bæjarhátíðir, hefjast jafn snemma og Hammond-hátíðin.

„Þetta byrjar auðvitað stórkostlega því veðrið er ekkert minna en frábært. Það hefur verið þokulæða hér rétt utan þorpsins nánast í allan dag en hitastigið frábært og sólin sýnt sig reglulega. Það sannast sagna verið sífellt auðveldara að fá til okkar stjörnur úr tónlistarheiminum á hátíðina því það skiptir engu við hvern við höfum samband að allir hafa heyrt af Hammond-hátíðinni og allir sýna vilja til að koma hér fram. Nú erum við sannkallað stórskotalið eins og 200 þúsund naglbíta, Röggu Gísla að ógleymdum Hjálmum sem er meðal þeirra allra stærstu.“

Fyrr í dag var tilkynnt á vef hátíðarinnar að „Hammondinn væri kominn út“ sem hljómar líklega undarlega í eyrum þeirra sem ekki til þekkja.

„Hér er um að ræða tvö orgel sem voru smíðuð hérna í áhaldahúsi bæjarins fyrir svona sirka fimmtán árum síðan. Þetta vel fyrir mína tíð en eitthvað sem var ákveðið á þeim tíma en þetta hefur fylgt hátíðinni í fjöldamörg ár og í huga marga er það svo að þegar þessi orgel eru komin á sinn stað þá er Hammond-hátíðin raunverulega hafin. Við setjum annað þeirra niður hér við ráðhús bæjarins og annað fer á það sem við köllum hér Neistatúnið. Orgelin eðli máls samkvæmt ekki spilhæf neitt en fólki býðst að nota hugmyndaflugið.“

Kjaftfullt er af forvitnilegum atburðum á hátíðinni þetta árið og dagskrána alla má sjá hér.

Mynd tekin eftir hádegið á Djúpavogi og sýnir og sannar að veðrið er svo sannarlega ekki að aftra fólki frá því að heimsækja og njóta Hammond-hátíðarinnar. Mynd Ólafur Björnsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.