Jónas Sig á Bogganum: Hér hef ég átt mörg af mínum bestu giggum

jonas_sig_bogginn_0061_web.jpg

Jónas Sigurðsson segist lítið finna fyrir þreytu þrátt fyrir að hafa lokið sextán tónleikum á átján dögum í Fjarðaborg á Borgarfirði eystri. Ný orka komi með tónleikagestum á hverju kvöldi. Tónleikaröðin hefur verið vinsælli en hann óraði fyrir og áform um annað sem hann ætlaði að gera á meðan dvölinni stæði eru farin út um þúfur.

 

Tónleikum kvöldsins er nýlokið. Gestirnir eru að tæma salinn og Jónas stendur baksviðs á spjalli við Jón Arngrímsson, einn gesta kvöldsins. Umræðuefnið eru næstu tónleikar, hvernig byggja eigi þá upp.

Tónleikaröðin hefur gefið hugtakinu „kvöldgestir Jónasar“ nýja mynd. Á hverju kvöldi hafa gestir komið fram og spilað með honum. Borgfirðingar, fyrrverandi skólasystkini úr Alþýðuskólanum á Eiðum og landsþekktir tónlistarmenn.

Facebook-skilaboð að morgni urðu að tónleikum að kvöldi

„Ég hef valið gestina af handahófi. Ég hef góðan fólk á Borgarfirði sem þekkir fólk út um allt. Síðan þekki ég fólk í gegnum tónlistina. Ég var með ákveðinn hóp sem ég hafði rætt við og ákveðið dagsetningar fyrirfram.

Síðan eru það tónleikar eins og með Súellen. Þeir byrjuðu á Facebook-skilaboðum að morgni og þeir voru mættir um kvöldið.“

Jónas ætlaði að spila öll kvöld vikunnar nema mánudaga. Hann bætti samt við tónleikum í fyrrakvöld eftir að upp komst að hann hafði reiknað vitlaust og eina tónleika vantaði til að ná takmarkinu um átján. Guðmundur Gíslason og Steinar Gunnarsson brugðust við kallinu og renndu frá Norðfirði til Borgarfjarðar.

„Ég ætlaði að gera rosalega margt annað“

Aukatónleikarnir endurspegla líka hvernig áætlunin sem Jónas lagði af stað með hefur raskast. Hann ætlaði að gera fullt af hlutum í þriggja vikna sumarfríi á Borgarfirði en mestallur tíminn hefur farið í tónleikana.

„Ég ætlaði að gera rosalega margt annað. Taka upp sönginn á nýju plötuna mína sem kemur út í haust, semja og skipuleggja útgáfuna. Ég ætlaði að spila svona 45 mínútur á hverju kvöldi. Síðan hefur þetta sprungið út. Ég vakna, gestir dagsins koma, við skipuleggjum, spilum tónleikana og svo fer ég aftur að sofa.“

Hann neitar því ekki að tónleikaröðin hafi reynt á hann. Í gærmorgun vaknaði hann veikur. „Það kólnaði svo rosalega á mánudaginn, við lokuðum ekki salnum og það var kaldur gustur upp á svið.“

Þrátt fyrir það spilaði Jónas, eins og hann er vanur, í tvo tíma og fékk til sín fjölda gesta. „Ég var eins og tuska þegar ég fór á sviðið en orkan kemur um leið og tónleikarnir hefjast.“

Gott að spila á Borgarfirði

Það er þessi orka sem Jónas sækir til Borgarfjarðar. Hann tók fjölskylduna með sér austur í „sumarfrí.“ „Mig langaði bara á Borgarfjörð. Ég hef tengingu hingað, það eru margir vinir mínir frá Eiðum sem búa hér og eru á sumrin.

Borgarfjörður er staður þar sem mér finnst gott að spila á. Ég hef oft spilað á Bræðslunni og hér, í Fjarðaborg, hef ég átt mörg af mínum bestu giggum. Ég fæ mikinn stuðning frá Borgfirðingum. Ég er að gefa út nýja plötu og ég er að prófa efni af henni. Til að gera það vildi ég fara á stað þar sem ég á góða sögu.“

„Hverjir tónleikar hafa sinn sjarma“

Jónas fer með góðar minningar og margar góðar sögur heim eftir þrjár vikur á Borgarfirði. Þegar hann er spurður að því hverjir hápunktarnir á tónleikunum hafi verið svarar hann: „Ég var spurður að þessu um daginn. Ég byrjaði að telja og áttaði mig á að ég var í raun að telja upp alla tónleikana. Hverjir tónleikar hafa haft ákveðinn sjarma.

Það var sérstaklega fyrir fyrstu tíu giggin sem ég hugsaði: „Þetta verður ekki nógu gott, ég á ekki eftir að standa undir væntingum í kvöld.“ Hér hafa ríkt ótrúlega jákvæður andi og ég held að það hafi hlaðið mig til baka.“

Mistökunum fagnað

Jónas leggur sitt af mörkum til að skapa jákvæðan anda uppi á sviðinu. Hann beinir því til áhorfenda að klappa og fagna þegar mistök eru gerð. Þegar slegin er feilnóta og byrja þarf aftur á lagi eða þegar illa gengur að róta uppi á sviðinu þegar skipt er um hljóðfæri.

„Þetta kemur úr leikhúsinu. Trúðarnir í Litla Jesú í Borgarleikhúsinu æfðu sig í þeirri hugmyndafræði að gera mistök. 

Ég hef verið gjarn á að búa mér til dagskrá en í þessari tónleikaröð langaði mig að gera umhverfi þar sem allt getur gerst, að fá fólkið með til að fagna. Margir gesta minna hafa verið óöruggir því þeir eru ekki vanir að spila fyrir framan svona stóran hóp. Það er búst fyrir þá þegar því er fagnað þegar þeir gera mistök og bara byrjað aftur.“

„Já, ég væri til í að gera þetta aftur“

Vinir Jónasar, sem komnir eru á Borgarfjörð til að heilsa upp á hann, bíða eftir honum frammi í Fjarðaborg. Fimm mínúturnar sem við gáfum okkur í myrkrinu baksviðs eru að verða búnar, rétt eins og sumarfrísvikurnar hans þrjár. Tónleikarnir eru orðnir sextán á átján dögum og tónlistarmaðurinn kominn með flensu en hann virðist samt eiga nóg eftir.

„Já, ég held ég væri til í að gera þetta aftur. Þetta er eins og maraþon. Næst þegar ég geri þetta veit ég á hverju ég á að passa mig á og æfi eftir því.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.