Hundruðum zeólíta stolið frá Teigarhorni

Hundruðum geislasteina hefur verið stolið úr steinasafni að Teigarhorni í Berufirði. Er húsráðandi kom heim í gær eftir nokkra fjarveru kom í ljós að um 500 steinar höfðu verið hreinsaðir úr safninu, úr sýningarskápum og af borðum. Jónína Björg Ingvarsdóttir á Teigarhorni segir safnið um 15 milljóna króna virði og ótryggt. Lögregla rannsakar málið.

teigarhorn2005.jpg

Umhverfi Teigarhorns er ríkt af geislasteinum og hafa Teigarhornshjónin gegnum árin komið sér upp einhverju besta geislasteinasafni landsins. Fjöldi ferðamanna hefur lagt leið sína að Teigarhorni til að skoða safnið og hjónin smám saman komið upp myndarlegri aðstöðu til að sýna safnið og taka á móti gestum. Safnið var undir lás og slá, en svo virðist sem þjófarnir hafi vitað nákvæmlega að hverju þeir gengu.

 

Geislasteinar (zeólítar) eru gerðir úr natríum-, kalíum- og/eða kalsíum-álsílikötum auk vatns. Steindirnar myndast við fremur lágt hitastig. Þekktar eru allt að 30 tegundir geislasteina og er kristalgrindin margbreytileg. Þeir eru venjulega hvítir eða glærir og með gler- eða skelplötugljáa.

Teigarhorn, sem var friðlýst árið 1975, er einn þekktasti fundarstaður zeólíta í heimi. Flest stærri söfn munu eiga eintök þaðan. Geislasteinarnir eru í klettum og sjávarhömrum á Teigarhorni og veðrast fram öðru hverju. Teigarhorn er þekktast fyrir geislasteinategundirnar skólesít, stilbít, epistilbít, analsím og heulandít.

 

 

Tilkynning frá lögreglu:

 

Rannsóknardeild lögreglunnar á Eskifirði rannsakar nú innbrot og þjófnað í steinasafn að Teigarhorni í Berufirði.  Einhverntímann nú siðustu daga var brotist inn í steinasafnið og stolið þaðan mjög merkilegum náttúrugripum aðallega geislasteinum. Talið er að um sé að ræða allt að 500 gripi sem var stolið.  Þeir sem geta gefið einhverjar upplýsingar varðandi þetta mál svo sem mannaferðir við Teigarhorn síðustu vikuna eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við rannsóknardeild lögreglunnar á Eskifirði í síma 470-6142.  Einnig er hægt að koma upplýsingum á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

 

zeolite.jpg

-

Mynd af Teigarhorni: Magnea I. Kristinsdóttir/ust.is

Sýnishorn af geislasteini.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.