Hátt í 200 tonn af búnaði hífð inn í nýja verksmiðjuhúsið

Þau eru engin léttavara tækin sem nú er verið að flytja úr fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði yfir í nýja verksmiðjubyggingu sem taka á í notkun í byrjun næsta árs. Alls vegur búnaðurinn hátt í 200 tonn og þar munar mest um sjálfan þurrkarann sem einn og sér vegur 97 tonn.

vopnafjrur2.jpg

 

,,Við erum langt komnir með að loka nýja verksmiðjuhúsnæðinu. Það á bara eftir að loka turninum sem kemur á þakið þar sem eimingartækin verða staðsett. Tækin eru 16-18 metra há og vega samtals um 36 tonn. Þá er sjóðarinn 23 tonn að þyngd og pressan vegur 24 tonn þannig að alls eru þessi fjögur tæki um 180 tonn að þyngd. Að teknu tilliti til smærri tækja eru þetta því hátt í 200 tonn sem þarf að hífa inn í verksmiðjuhúsið,“ sagði Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri á vefsíðu HB Granda fyrir helgina.

Um 40 manns vinna nú við að reisa verksmiðjubygginguna og koma tækjabúnaðnum fyrir. Tveir kranar, með 70 og 200 tonna lyftigetu, eru notaðir til að hífa einstök tæki inn á verksmiðjugólfið.

 ,,Þessu verki lýkur nú í vikunni og í næstu viku ættu menn að geta farið í að loka turninum og þar með verður búið að loka byggingunni fyrir vatni og vindum,“ sagði Sveinbjörn Sigmundsson.

vopnafjrur1.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 Myndir: Bjarki Björgólfsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.