Húsafriðunarnefnd heiðrar Hilmar Bjarnason og Geir Hólm

Í fyrra tók Húsafriðunarnefnd upp þá nýjung að veita viðurkenningu fyrir störf að húsverndarmálum og beindi þá sjónum sínum að varðveislu á gömlum verslunarinnréttingum og hvernig mætti nýta þær við nútímalegar aðstæður. Núna hefur nefndin ákveðið að vekja athygli á merku brautryðjendastarfi, sem unnið er úti á landsbyggðinni – oft við erfiðar aðstæður og takmarkaðan skilning – og heiðra tvo aldna forvígismenn húsverndar á Eskifirði, þá Hilmar Bjarnason og Geir Hólm.

randulfssjhs__eskifiri.jpg Í tilkynningu frá Húsafriðunarnefnd segir að eljusemi þessara manna og barátta fyrir verndun varðveisluverðrar byggðar og húsa hafi haft margvísleg áhrif á Eskifirði. Má þar nefna gerð húsakönnunar en niðurstöður hennar voru notaðar til að afmarka og skilgreina hverfisvernd í aðalskipulagi bæjarins, þá fyrstu hér á landi. Hilmar Bjarnason átti frumkvæði að því að varðveitt voru eftirtalin þrjú hús á Eskifirði: Gamla-búð (byggð 1816), Randulfssjóhús (byggt 1882/1890) og Jensenshús (byggð 1837). Árið 1966 hóf hann að tala fyrir húsvernd og á vettvangi Byggðarsögunefndar Eskifjarðar vann hann að varðveislu umræddra húsa af alúð, ósérplægni og dæmafárri þrautseigju. Geir Hólm sá um lokafrágang á Gömlu-búð, endurbyggingu Randulfssjóhúss ásamt tilheyrandi bryggju og bar hitann og þungann af endursmíð Jensenshúss. Auk þess sá hann um endurnýjun vitans á Dalatanga, tryggði varðveislu Sómastaða við Reyðarfjörð, mældi og teiknaði Eskifjarðarkirkju og kaupmannshúsið í Útkaupstað og smíðaði stórt líkan af byggðinni á Eskifirði. Hann veitti Sjóminjasafni Austurlands forstöðu um árabil.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.