Hlaut hvatningarverðlaun TAK

Tengslanet austfirskra kvenna veitti Hrafnhildi Mjöll Geirsdóttur, eiganda fyrirtækisins Hrefnuberja og jurta, hvatningarverðlaun TAK á aðalfundi sínum nýverið. Hrafnhildur Mjöll er þriðja konan sem hlýtur verðlaunin, en þau eru veitt konum sem þykja hafa sýnt frumkvæði og áræðni í atvinnulífi, menningu og samfélagi. Hrafnhildur Mjöll hóf að markaðssetja íslensk og frönsk ber í sultum og hlaupi fyrir nokkru og selur nú afurðir sínar í völdum gæðaverslunum um land allt undir merkinu Hrefnuber og jurtir.

hrefnuber_1_vefur.jpg

 

 

Viðtal við Hrafnhildi Mjöll, sem birtist í jólablaði Austurgluggans: Austfirska sprotafyrirtækið Hrefnuber og jurtir fær góðar viðtökur Eitt ber í munninn og móinn allur í krukkur 

Hrafnhildur Mjöll Geirsdóttir á Reyðarfirði er atorkumikil kjarnakona sem lætur hugmyndir sínar verða að veruleika. Hún hóf að markaðssetja íslensk og frönsk ber í sultum og hlaupi fyrir nokkrum mánuðum og selur nú afurðir sínar í völdum gæðaverslunum um land allt undir merkinu Hrefnuber og jurtir.

Hrafnhildur kemur upphaflega úr 101 Reykjavík en flutti til Reyðarfjarðar fyrir tólf árum síðan, í kjölfar þess að hún kynntist manni sínum, Reyðfirðingnum Gísla Briem, rafvirkja og sjúkraflutningamanni. Þau eiga tvo drengi, 12 og 17 ára gamla. ,,Ég ætlaði nú alltaf að búa í stórborg erlendis þegar fram í sækti, en er þegar upp er staðið alsæl hér. Við vorum í Reykjavík um hríð eftir fimm ára búsetu á Reyðarfirði, en ég komst fljótlega að því að borgarlífið átti ekki lengur við mig og ég var því fegnust þegar við komum til baka,“ segir Hrafnhildur. ,,Hér voru að fara í gang álversframkvæmdir og við horfðum því fram á mikla uppbyggingu og mýmörg tækifæri.“ Hrafnhildur er einkaþjálfari og rak um skeið líkamsræktarstöðvar fyrir Iceland Spa Fitness á Reyðarfirði og Eskifirði. Hún er nú í náttúrulækninganámi við Heilsumeistaraskólann/School of Natural Medicine. Námið er á háskólastigi og grunnur þess lithimnugreining, sem Hrafnhildur segir ákaflega áhugaverða. Hún er jafnframt sölumaður fyrir Yggdrasil, verslun með lífrænt ræktaðar afurðir, á Austurlandi, auk annarra verkefna.

Þúsundir berjalítra

 

Fjölskyldan heldur hesta, hund og ketti og Hrafnhildur segir þau mikið útilífsfólk. Það kemur sér vel því öll þau ber sem hún notar í framleiðslu sína verða aldeilis ekki tínd upp á einum degi.

,,Líklega byrjaði þetta allt með því að ég hef bara svo óskaplega gaman af því að tína ber. Ég hef samt aldrei verið mikil sultukona. Mig fór þó að langa til að búa til hrútaberjahlaup og fleira sem myndarlegt berjafólk á Austurlandi sekkur sér í á hverju hausti. Í framhaldinu fór ég að velta fyrir mér að auk hreinna sulta væri tilvalið að blanda saman berjum og líkjörum og nota til dæmis með góðum ostum.“

Hrafnhildur notar íslensk villt ber í sultur og hlaup og notar lífrænan hrásykur til að sæta berin. Þá setur hún innflutt hágæðaber frá Frakklandi í líkjörssultur úr rifsberjum og sólberjum. Frönsku berin blandar hún með Contrau, koníaki og Grand Marnier. Alls eru tólf gerðir af sultum og hlaupum í línu Hrefnuberja. ,,Ég tími ekki að nota íslensk ber saman við líkjör, þau eiga að vera algjörlega náttúruleg og ég vil ekki setja aukaefni út í þau,“ segir Hrafnhildur. Framleiðslan hófst þegar hún átti ríkulega uppskeru af berjum og miklu meira en fjölskyldan réð við  að torga. ,,Ég fór að velta fyrir mér að þrátt fyrir að mikið sé til af sultum í búðunum, er hvergi til sulta úr íslenskum berjum án litarefna, rotvarnarefna og annarra aukaefna og alls ekki úr aðalbláberjum og hrútaberjum. Af hverju þá ekki að prófa að setja íslensk ber á markað, algjörlega hreina afurð með lífrænum hrásykri?“

Alúð og nærgætni

 

Eftir nokkra leit að réttu umbúðunum og hönnun á miðum hófst salan. Melabúðin í Reykjavík tók afurðunum opnum örmum og nú er varan einnig á boðstólum í Fjarðakaupum, Ostabúðinni Bitruhálsi, Búrinu, hjá Hafliða bakara, í Ostabúðinni Skólavörðustíg, Þinni verslun, Mosfellsbakaríi, hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, í Bakaríinu á Sauðárkróki og við Brúna á Akureyri, Jólagarðinum í Eyjafirði, í Nesbæ Neskaupstað, Horninu í Sólskógum á Reyðarfirði og í Kaffi Valný á Egilsstöðum.

Sulturnar og hlaupin eru unnin í aðstöðu KK-matvæla á Reyðarfirði um helgar. Allt er handunnið af alúð og nærgætni, alveg frá því að berin eru handtínd og þangað til lokin eru skrúfuð á krukkurnar. Berin eru mikið tínd í Mjóafirði, Vöðlavík, í Hallormsstaðarskógi og um allt Austurland.

Þróunarfélag Austurlands hefur verið Hrafnhildi mjög innan handar við gerð viðskiptaáætlunar og afurðaþróunina. Hún fékk styrki frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins fyrir íslensku berin og úr Kvennasjóði til að þróa íslenska, þurrkaða lerkisveppi og kryddjurtir fyrir markað. Sveppirnir fara brátt í sölu og kryddjurtablöndur er næsta skref. Þar er Hrafnhildur meðal annars að hugsa um hvönn og krækiberjalyng og ætlar að þróa þá hugmynd áfram þegar tekur að vora.

,,Það er svo margt sem ég á eftir að gera! Ég hef fengið afspyrnugóð viðbrögð við framleiðslunni og meistarakokkar hafa sagt mér að sulturnar séu afar góðar. Við erum núna að spekúlera í útflutningi til sælkeraverslana í Evrópu og að koma vörunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og ferjuhöfnina á Seyðisfirði. Möguleikarnir eru fjölmargir.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.