Helgin: Tónlist úr gæludýraleikföngum, mótmæli gegn stríði og tónleikar á Stöðvarfirði

Tónlistarunnendur geta valið að fara á tvöfaldan djasskokteil í Tónlistarmiðstöð Austurlands í stað þess að sitja heima yfir Söngvakeppninni annað kvöld. Á Stöðvarfirði verða tvennir tónleikar um helgina. Fyrirlestur er á Skriðuklaustri á konudaginn en á morgun er boðað til mótmæla gegn hernaðinum í Mið-Austurlöndum á Egilsstöðum.

Lofað er djassi, stuði, spuna, sveitasælu og sækadelíu í tilkynningu Tónlistarmiðstöðvar Austurlands um djasstónleikana þar annað kvöld klukkan 20:30. Fram koma annars vegar orgelleikarinn Tómas Jónsson, hins vegar saxófónleikarinn Tumi Árnason.

Með þeim báðum trommar Magnús Trygvason Eliassen. „Við verðum með frumsamið efni eftir þessi tvö tvíeyki. Það er viðbúið að sumt sé tormeltara en það sem fólk hlustar á almennt. En þetta er hvernig sem fólk lítur á það, heilbrigt eða óheilbrigt, mótvægi við Söngvakeppnina sem er á sama tíma,“ segir Magnús.

Þríeykið keyrir austur með töluvert af hljóðfærum í farteskinu. „Við erum með ítalskt farfísuorgel, alls konar effekta á saxófóninn, sérstakt trommusett og alls konar gæludýraleikföng. Það er virkilega skemmtilegt að spila á þau.“

Á Stöðvarfirði verða tónleikar á Café Söxu bæði í kvöld og morgun klukkan 21:00. Í kvöld er það heimasveitin Sárasótt sem mun flytja pönk. Annar gír verður á morgun þegar Guðný María kemur fram. Lög hennar á borð við „Okkar, okkar páskar“, „Helgarfrí“ og „Akureyrarbeib“ hafa fengið þó nokkra spilun á YouTube.

Boðað hefur verið til samstöðufundar og göngu með Palestínu á Egilsstöðum á morgun. Slík samkoma var haldin í byrjun febrúar. Safnast verður saman við Egilsstaðakirkju klukkan 14:00 og tengið að Tehúsinu þar sem eiginlegur samstöðufundur verður haldinn með stuttum ræðum og tónlist klukkan 14:30.

Á Tehúsinu í kvöld frá klukkan níu leika þeir Elli Rokk og Dóri Pella lög sem þeim þykja skemmtileg. Í fyrramálið er síðan hlaup í vetrarhlaupasyrpu UMF Þristar. Ræst verður frá íþróttahúsinu á Egilsstöðum klukkan 11:00.

Á Skriðuklaustri er hefð fyrir konudagserindi. Það flytur að þessu sinni mun Lilja Árnadóttir, fyrrum sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafnsins. Erindi hennar fjallar um listsköpun íslenskra kvenna á fyrri öldum þar sem refilsaumur er útgangspunkturinn. Hún var ráðgjafi við sýningu sem staðið hefur síðustu mánuði í Þjóðminjasafni Íslands. Erindið hefst klukkan 14:00 en það verður einnig sent út á YouTube-rás Gunnarsstofnunar.

Þá er þingflokkur Sjálfsæðisflokksins á ferð í tilefni af kjördæmaviku. Komið verður við á Egilsstöðum og Reyðarfirði á sunnudag en Djúpavogi í hádeginu á mánudag. Þá er rétt að vekja athygli á að boðaður fundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á mánudag verður klukkan 20:00 en ekki 17:00 eins og áður var auglýst.

Á Vopnafirði hefur verið boðað til konudagsmessu klukkan 14:00 á sunnudag á Uss bistro. Karlakórinn syngur við messuhaldið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.