Helgin: Sumarhátíð (smá rigning), listir og skemmtilegar gönguferðir

Líkt og flestar helgar sumarsins eru í boði bæði tónleikar, listviðburðir og skipulögð útivist á Austurlandi um helgina. Hin árlega Sumarhátíð UÍA fer einnig fram á Egilsstöðum.

Sumarhátíðin fer fram með hefðbundnu sniði. Um er að ræða íþróttakeppni fyrir börn fædd 2005 og síðar og keppt er í sundi, frjálsum íþróttum, útikörfubolta, rafíþróttum, frisbígolfi, bogfimi, skák og á fjallahjólum svo eitthvað sé nefnt.

Mótshaldarar vilja minna fólk á ábyrga hegðun og smitvarnir en nánari upplýsingar mótið, dagskrá þess og reglur er að finna á uia.is.

Af öðrum íþróttaviðburðum á svæðinu má nefna að Dyrfjallahlaupið fer fram á laugardag. Um er að ræða árlegt 23 km utanvegahlaup með um 1000 m hækkun í kringum Dyrfjöllin sjálf. Hlaupið verður af stað frá Borgarfirði kl. 11.

 

Flamenco og faðmlög

Íslenski flamenco-gítarleikarinn Reynir del Norte kemur fram á tónleikum í Fjarðarborg á Borgarfirði í kvöld. Reynir er fæddur og uppalinn á Hvanneyri en hefur búið um árabil í Granada, Spáni þar sem hann vinnur sem Flamenco listamaður.

Reynir del Norte gaf út sína fyrstu sólóplötu, El Reino de Granada, í desember 2019 sem jafnframt er fyrsta íslenska Flamenco hljómplatan. Platan inniheldur 8 tónsmíðar Reynis sem fluttar voru af honum sjálfum í samstarfi við nokkra af færustu Flamenco listamönnum Granada.

Lög plötunnar verða flutt á tónleikunum sem og nokkur þekkt íslensk dægur-og þjóðlög útsett af Reyni fyrir Flamenco gítar. Þema tónleika verður því íslenskt flamenco.

Reynir er þekktur fyrir orkumikinn og tilfinningaríkan flutning í bland við skemmtilegar sögur og spjall á mili laga um líf hans í Andalúsíu. Í fyrra hélt hann sömuleiðis frábæra tónleika í Fjarðarborg sem enginn gleymir sem þá upplifði.

Svavar Knútur Kristinsson og Kristjana Stefánsdóttir hafa unnið saman í mörg ár og sendu nýverið frá sér plötuna Faðmlög. Þau eru á ferð um Austurland um helgina og halda tónleika á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Borgarfirði og Höfn í Hornafirði líkt og Austurfrétt hefur áður greint frá.


Gönguferðir við flestra hæfi

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs gengst fyrir tveimur skipulögðum dagsgöngum um helgina.

Annars vegar er á laugardag í boði þriggja skóa ferð í Sönghofsdal, gullfallega gróðurvin á hálendinu norðan Vatnajökuls sem er umlukin alls kyns bergmyndunum, tröllvöxnum, stórum og smáum. Keyrt er í Möðrudal, inn Kverkfjallaveg og inn fyrir Kreppubrú. Þaðan er gengið um 9 kílómetra í Sönghofsdal en gangan er um 18 kílómetrar fram og til baka,

Mæting er við hús Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, Egilsstöðum. Lagt verður af stað þaðan klukkan 8:00 eftir að sameinast hefur verið í bíla. Verð er 500 krónur og Stefán Kristmannsson leiðir gönguna. Minnt er á að nauðsynlegt er að skrá sig í gönguna því mögulega þarf að gera breytingar vegna veðurs.

Á sunnudag er svo í boði Grallaraferð yfir Gönguskarð, úr Njarðvík, yfir í Stapavík og þaðan í Unaós. Þessi ferð er hugsuð fyrir fjölskyldur og yngri kynslóðina og því farið hægara yfir.

Tilgangur ferðarinnar er samvera fjölskyldunnar, að börnin takist á við áskoranir, efli trú á eigin getu og læri um nærumhverfið og náttúruna. Leiðin er um 11 kílómetrar, hækkun um 415 metrar og heildartími ferðar, með akstri, um 6-7 klukkustundir. Ferðin er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Lagt er af stað frá húsi Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8 á Egilsstöðum, kl 10:00 eftir að hefur verið sameinast í bíla. Hámarksfjöldi er 30 manns og leiðsögumenn eru Þórdís Kristvinsdóttir og Hildur Bergsdóttir.

Nánari upplýsingar um ferðirnar og skráningu má finna á heimasíðu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.


Opnun sýningar og útimessa

Egilsstaðaprestakall stendur fyrir árlegri útimessu í dreifbýli prestakallsins. Að þessu sinni verður messað á flötinni við Geirstaðakirkju í landi Litla-Bakka í Hróarstungu sunnudaginn 12. júlí kl. 16:00. Prestur er Þorgeir Arason og Torvald Gjerde leikur á harmoniku undir sálmasöng. Skúli Björn Gunnarsson segir frá Geirstaðakirkju og tilgátunum að baki byggingunni. Skipuleggjendur mæla með að taka með sér til messunnar eitthvað til að sitja á og ekki spillir nestisbiti svo hægt sé að sameinast í messukaffi í lokin.

Rúllandi snjóbolti er stærsta samtímalistsýning á landinu og er nú haldin í 13. sinn. Austurfrétt hefur áður fjallað um sýningu ársins en hún verður formlega opnuð gestum í Bræðslunni á Djúpavogi á laugardag kl. 15 og eru allir velkomnir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.