Helgin: Meira en bara sameiningarkosningar

Þótt kosning um sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Mið-Austurlandi verði að teljast til stærstu viðburða helgarinnar er ýmislegt annað í boði, svo sem kvikmyndasýningar, tónleikar, afmæliskaffi og messur sem marka tímamót.

Minnst ein kosningavaka verður haldin annað kvöld. Félagasamtökin Ungt Austurland standa fyrir henni á Aski Taproom á Egilsstöðum frá klukkan 21:00.

Heimildamyndin Gósenlandi verið sýnd í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Myndin fjallar um mataröflun, matseld og matarsögu Íslands. Leikstjóri myndarinnar Ásdís Thoroddsen verður viðstödd sýninguna.

Í myndinni er meðal annars sögð saga Elínar Methúsalemsdóttur heitinnar frá Bustarfelli í Vopnafirði og fjölskyldu hennar. Elín sat sem barn við hlóðirnar í gamla burstabænum og tók þar síðar við búsforráðum og fluttist á sjöunda áratug í nýtískulegt hús við hliðina á hinu gamla. Elín lést í sumar sem leið, 86 ára að aldri.

Dóttir hennar Björg hafði lengi rekið búið ásamt eiginmanni sínum, Braga Vagnssyni, en nú gengur það áfram til sonarins, Eyþórs Braga. Þessir þrír ættliðir mynda kjarnann í frásögninni um íslenska matarhefð og frá þeim er síðan farið vítt um landið og fróðleiks aflað.

Í næsta húsi við hliðina verða tónleikar með söngkonunum Jónínu Ara og Hrafnhildi Ýr. Þær munu bæði syngja lög úr eigin safni sem og þekkt dægurlög.

Jónína hefur komið víða fram á Íslandi, Evrópu og Bandaríkjunum en hún gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Remember. Hrafnhildur Ýr hefur komið fram víða fram á landinu undanfarin 23 ár, meðal annars sjónvarpsþáttunum The Voice og Söngvakeppni Sjónvarpsins. Austfirðingar kannast við hana síðan hún starfaði sem kynningarstjóri Austurbyggðar árin 2005-6.

Á Eskifirði verður haldið upp á 80 ára afmæli Ungmennafélagsins Austra. Af því tilefni er efnt til kaffisamsætis og uppskeruhátíðar í félagsheimilinu Valhöll klukkan 14:00.

Tímamót eru um þessar mundir með tilurð Austfjarðaprestakalls. Fjórir nýir prestar eru að koma til starfa og fjórir að hverfa á braut. Í Heydalaprestakalli heldur sr. Gunnlaugur Stefánsson kveðjumessur sínar á sunnudag en hann lætur af embætti eftir 33ja ára starf. Fyrri messan verður klukkan 11: í Stöðvarfjarðarkirkju en sú seinni í Heydalakirkju klukkan 15:00.

Í Eskifjarðarkirkju klukkan 14:00 verða tveir nýir prestar settir inn í embætti sín í prestakallinu. Það eru þau sr. Erla Björk Jónsdóttir og sr. Benjamín Hrafn Böðvarsson. Prófastur, sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, annast innsetninguna.

Þá verður á sunnudag haldið tóvinnunámskeið í Hallormsstaðarskóla í samvinnu við Minjasafn Austurlands og Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Námskeiðið er ætlað þeim sem vilja kynnast tóvinnu en lögð er áhersla á að leiðbeina í tóvinnu með sömu aðferðum og notaðar voru fyrrum, þ.e. að taka ofan af, hæra, kemba og spinna bæði á rokk og halasnældu. Spunnið er þel og tog, notaðir viðeigandi kambar, útskýrð gömul heiti og orðatiltæki um áhöld, ull og spuna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.