Helgafelli lokað

Dvalarheimilið Helgafell á Djúpavogi verður ekki opnað á ný eftir sumarleyfi. Forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HAS) telja ekki forsvaranlegt að reka heimilið áfram með jafn fáum vistmönnum og raun ber vitni.

 

ImageÞetta kemur fram í tilkynningu sem send var fjölmiðla í kvöld en ákvörðunin var tekin eftir fund með forráðamönnum Djúpavogshrepps og tilkynnt starfsmönnum í kjölfarið.

Í tilkynningunni segir að samkvæmt beiðni frá þáverandi heilbrigðisráðherra hafi HSA tekið við rekstri dvalarheimilisins í ársbyrjun 2008. Djúpavogshreppur hafi þá ekki treyst sér til að standa lengur undir rekstri þess. Markmiðið hafi verið að auka þjónustu heimilisins, meðal annars með að fagfólk á hjúkrunarsviði stýrði starfseminni og komið yrði á næturvöktum.

Til að mæta þessu hafi framlag HSA til Helgafells verið aukið og starfsfólki heimilisins, fimm einstaklingum, sagt upp til að endurskipuleggja vaktir. Jafnframt hafi verið auglýst eftir fólki til starfa og starfsemin ætti að hefjast með breyttu sniði eftir sumarleyfi.

Helgavell rúmar mest 8-10 vistmenn. Aðsóknin minnkaði í fyrra og enn frekar fyrri hluta þessa árs. „Í sparnaðarskyni var ákveðið að loka heimilinu yfir sumarleyfistímann og vistmönnum, þremur að tölu, útveguð vistun á hjúkrunardeildum HSA eða hjá ættingjum. Sumarleyfið hófst 13. júlí, og fóru allir vistmenn af heimilnu fyrir lok dags. Fyrir nokkru var ljóst að líklegt væri að einingis tveir vistmenn yrðu á heimilinu þegar það opnaði að nýju.“

Í tilkynningunni kemur fram að á fundi með sveitarstjóra og oddvita hreppsins í dag hafi orðið ljóst að sveitarfélagið tæki ekki við rekstri heimilisins frá og með 1. janúar 2010. HSA hafi aðeins ætlað að reka heimilið út þetta ár.
„Fram kom að HSA taldi ekki forsvaranlegt að endurráða fimm starfsmenn til 4 mánaða til að sinna svo fáum og leggja svo reksturinn niður um næstu áramót, heldur væri rétt að leita annarra tilgreindra úrræða fyrir vistmennina og voru þau rædd við.

Stjórnendur HSA héldu síðan fund með starfsmönnum Helgafells og kynntu þessa niðurstöðu og jafnframt var aðstandendum vistmanna kynnt niðurstaðan jafnóðum og til þeirra náðist. Stjórnendur HSA harma að hætta þarf rekstri heimilisins og þakka jafnframt ágætu starfsfólki þess gott starf og góða samvinnu. Stofnunin mun í samvinnu við sveitarfélagið styrkja heilbrigðisþjónustu við aldraða í Djúpavogslæknishéraði.“

HSA var á fjárhagsáætlun ársins gert að skera niður um tvö hundruð milljónir en stofnunin hefur átt í átt í miklum fjárhagsvandræðum. Nýverið varð ljóst að skera þyrfti niður um sextíu milljónir í viðbót.

Í lok vetrar var útlit fyrir að dvalarheimilinu yrði lokað í sparnaðarskyni. Íbúar á Djúpavogi brugðust við með undirskriftasöfnun sem afhent var heilbrigðisráðherra. Hann sagði þá að reynt yrði að koma í veg fyrir uppsagnir starfsfólks og að tryggja þjónustu við íbúa Djúpavogs. Fyrri ákvarðanir yrðu þannig endurskoðaðar. Ríkisendurskoðun benti í vetur á að taka ætti rekstur Helgafells til endurskoðunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.