Heilög Barbara límd saman

Stytta af heilagri Barböru, sem fannst í rústum klaustursins að Skriðu í Fljótsdal, er meðal sýningargripa á nýjustu sýningu Þjóðminjasafnsins. Fornleifafræðingar fundu um 200 brot sem búið er að líma saman.

heilg_barbara.jpg

Styttan er hluti af sýningunni Endurfundir sem opnuð var á Þjóðminjasafninu um helgina. Sýningin fjallar um fornleifarannsóknir sem voru styrktar af Kristnihátíðarsjóði árin 2001-2005. Uppgröfturinn á Skriðuklaustri var meðal þeirra.Flest brotanna fundust síðsumars árið 2005. „Þau fundust flest inni í kór kirkjunnar en andlitið og nokkur brot í viðbót annars staðar. Styttan er úr terracotta leir og steypt í Utrecht í Hollandi á 14. eða 15. öld,“ segir dr. Steinunn Kristjánsdóttir, sem stýrt hefur uppgreftrinum.  Flóttinn úr turninum  Saga Barböru er sú að faðir hennar ofverndaði hana með að loka hana inni í turni. Hún tók kristna trú en sagði honum ekki frá því. Þegar hann komst að því ætlaði hann að myrða dóttur sína en bænir hennar urðu til þess að gátt opnaðist í veggnum í herberginu hennar þannig hún gat flúið. Faðir hennar elti hana uppi og hún var síðar dæmd til dauða fyrir trú sína. Faðir hennar fullnægði dauðarefsingunni en var refsað þegar eldingu laust niður í hann og hann dó. Barbörustyttan frá Klaustri heldur á bók í vinstri hendi en turni í þeirri hægri. Turninn hefur samt ekki enn verið límdur á.Vernd Barböru var löngum talin gegn eldi í ýmsum formum. Meðal annars hefur fundist stytta af henni í Kapelluhrauni, rétt utan Hafnarfjarðar. Hún verndar einnig námumenn og er stytta af henni í Héðinsfjarðargöngum.  Verndararnir fjórtán  Á 15. öld var hún sett í hóp fjórtán dýrlinga sem valdir voru til að vernda Evrópubúa gegn skæðum farsóttum sem þá geisuðu. Hver dýrlingur hafði sitt hlutverk og átti Barbara að vernda menn gegn sótthita. Steinunn telur líklegast að lækningahlutverk Barböru hafi fært hana til Skriðuklausturs, enda fjöldi vísbendinga um að klaustrið þar hafi verið heilsuverndarstöð.Grafið hefur verið á Skriðuklaustri frá sumrinu 2002. Seinasta sumar fannst aðaleldhús klaustursins og Steinunn segir að uppbygging klaustursins líkjast sífellt meir alþjóðlegri grunnmynd klaustra. Áfram verður grafið í sumar, þrátt fyrir verulegan niðurskurð til rannsóknarinnar á fjárlögum. „Við höfum enn styrk frá Evrópusambandinu og Rannís en við fengum lítið af fjárlögum. Það verður grafið en við þurfum að skera eitthvað niður.“                                                                                                                                                          GG Styttan af heilagri Barböru á Þjóðminjasafninu. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.