Heildaraflamark íslensku sumargotssíldarinnar 40 þúsund tonn

Hafrannsóknastofnunin lagði í gær til að heildaraflamark  íslensku sumargotssíldarinnar fiskveiðiárið 2009/10 verði 40 þúsund tonn. Jafnframt leggur stofnunin til að veiðunum verði stýrt þannig að tryggt verði að sýnataka dreifist yfir hefðbundinn vertíðartíma til að hægt verði að fylgjast náið með þróun sýkingar í stofninum. Vertíðin er nýhafin og er talan byggð á rannsóknarleiðangri Hafró í október og nýrri stofnúttekt.

sild.jpg

Hafrannsóknastofnunin ákvað í júní síðastliðnum að fresta því að gera tillögu um aflamark fyrir íslenska sumargotssíld þar til frekari niðurstöður lægju fyrir um sýkingarhlutfall í stofninum. Vegna óvissu um þróun stofnsins í ljósi mikillar sýkingar var jafnframt farið til bergmálsmælingar í lok október 2009. Í leiðangrinum mældist nú nokkru meira af síld en í bergmálsmælingu síðasta vetur. Þessi mismunur getur stafað af mæliskekkju en einnig eru vísbendingar um að fyrri bergmálsmæling hafi ekki náð til alls veiðistofnsins.

 

Mat Hafrannsóknastofnunarinnar á stærð stofnsins í júní síðastliðnum byggðist á aldursgreindum aflagögnum ásamt niðurstöðum bergmálsmælinga allt frá árinu 1986. Við endurúttekt á stærð stofnsins með afla- og bergmálsgögnum fyrri ára ásamt bergmálsmælingu frá því í október síðastliðnum, er áætlað að hrygningarstofninn hafi minnkað verulega á undanförnum árum og verði um 465 þúsund tonn í ársbyrjun 2010. Til samanburðar var áætlað að hann yrði um 370 þúsund tonn samkvæmt úttekt stofnunarinnar í júní síðastliðnum. Athuganir á sýkingu vegna sníkjudýrsins Ichthyophonus hoferi á síðustu dögum hafa leitt í ljós að sýkingarhlutfall í stofninum er hærra nú en á síðustu vertíð eða rúmlega 40%.

 

Óvissa í bergmálsmælingum og stofnmati er töluverð en þar til viðbótar bætist óvissa um afdrif stofnsins af völdum sýkingar. Gert er ráð fyrir að allur sýktur fiskur drepist að nokkrum mánuðum liðnum frá því hann smitast. Þannig eru líkur á að rúm 40% alls veiðistofnsins muni drepast af völdum sýkingarinnar fram að hrygningu 2010.

 

Þrátt fyrir óvissu um ástand og þróun stofnsins sem að ofan greinir, eru ekki taldar líkur á því að afli allt að 40 þúsund tonnum hafi umtalsverð áhrif til næstu ára. Í ljósi þessa leggur Hafrannsóknastofnunin til að heildaraflamark fiskveiðiárið 2009/10 verði 40 þúsund tonn. Jafnframt leggur stofnunin til að veiðunum verði stýrt þannig að tryggt verði að sýnataka dreifist yfir hefðbundinn vertíðartíma til að hægt verði að fylgjast náið með þróun sýkingar í stofninum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.