Hallormsstaðarskóli kynnir nýtt nám í sjálfbærni og sköpun

Hallormsstaðarskóli, sem áður hét Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað, er að hefja nýtt skeið í starfsemi sinni. Námið í skólanum verður framvegis með áherslu á sjálfbærni og sköpun og sérfræðingar kenna stök námskeið, sem almenningi gefst í völdum tilfellum tækifæri til að skrá sig á.

Nýja námið, Sjálfbærni og sköpun (e. Creative sustainability), er bæði verklegt og bóklegt. Þar verður fengist við hin stóru viðfangsefni nútímans á sviði matarfræði og textíls með áherslu á sjálfbærni og sköpun. Námið í skólanum er að stórum hluta byggt upp á MasterClass þar sem sérfræðingar leiðbeina nemendum um vinnsluaðferðir og nýtingarmöguleika.

Fjölmörg MasterClass-námskeið verða á haustönn og er það vilji stjórnenda skólans að almenningur njóti þeirra sérfræðinga sem heimsækja skólann í skóginum. Ef pláss leyfir er hægt að skrá sig á stök MaterClass. Þá eru nemendur og aðrir þátttakendur saman og möguleikarnir verða fleiri með stærra tengslaneti.

Helstu MasterClass annarinnar verða; vefnaður, súrkáls- & kimchigerð, fataviðgerðir – SLOW clothing, ostagerð og Landslið kjötiðnaðarmanna mun fara yfir austfirska villibráð og lamb.

Námið er þverfaglegt og getur nýst öllum þeim sem vilja hafa áhrif og þeim sem vilja taka áskorun um stærri hnattræn verkefni. Viðfangsefnin eru þess eðlis að hver og einn getur nýtt fyrri reynslu og menntun til verkefnavinnu og nýsköpunar.

Meginmarkmið námsins er að mennta nýja kynslóð fagfólks sem getur unnið þvert á fræði og faggreinar með áherslu á nýtingarmöguleika auðlinda. Markmið er að gera nemendur meðvitaða um hvaðan hráefni kemur, hringrás hráefna og siðfræði náttúrunytja.

Í tilkynningu frá skólanum segir að á Austurlandi séu endalaus tækifæri og möguleikar til nýsköpunar í textíl- og matvælaframleiðslu. Í skólanum skapist einstakar vinnuaðstæður til að meðhöndla og vinna hráefni þar sem gamli tíminn mætir nútímatækni. Hugað sé sérstaklega að nýtingu hráefna á sjálfbæran hátt með hagsmuni neytenda og náttúruauðlinda að leiðarljósi.

Hússtjórnarskólinn hóf starfsemi fyrir 90 árum þegar Sigrún P. Blöndal, stofnandi skólans, stýrði skólastarfi. Sigrúnu var margt til lista lagt og ritaði hún fyrstu vefnaðarkennslubók Íslands en einnig kennslubók í matarefnafræði. Inntakið í náminu hefur ætíð verið í nánum tengslum við náttúruna og náttúruleg hráefni og verður engin breyting þar á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.