Hallormsstaðarskóli í úrslitum Skólahreysti á morgun

Úrsliti í Skólahreysti  MS verða á morgun fimmtudag í Laugardalshöll 30.apríl og hefst keppnin í beinni útsendingu á RÚV kl.20:00. Nú hafa 110 skólar lokið keppni í níu undankeppnum og eru það eftirtaldir skólar sem sigruðu sinn riðil og náðu sér í þátttökurétt í úrslitamóti: Hallormsstaðarskóli, Foldaskóli, Gr.Ísafjarðar, Gr.Siglufjarðar, Háteigsskóli, Heiðarskóli, Hvolsskóli, Lindaskóli, Rimaskóli, Salaskóli, Varmalandsskóli og Þelamerkurskóli.

sklahreysti.jpg

Í fréttatilkynningu segir að þeir sem fylgst hafi með þáttunum í vetur viti hvað framundan er. ,,Metin hafa fallið  hvert af öðru og hver veit nema þau verði slegin en frekar annað kvöld.

 

Pálmi Rafn Steindórsson úr Foldaskóla mætir til leiks.  Hann setti nýtt íslandsmet í vetur í dýfum og tók hann 59 stk. 

 

María Ása Ásþórsdóttir úr Heiðarskóla í Reykjanesbæ mætir til leiks. Hún atti íslandsmetið í armbeygjum hluta úr vetri eða 77 stk.      Sú sem á núgildandi íslandsmet í armbeygjum heitir Unnbjörg Jóna Ómarsdóttir úr Réttarholtsskóla.  Hún tók 80 stk en Réttarholtsskóli er þó ekki í úrslitum.    

 

Þessir skólar sem eru í úrslitum eru mjög jafnir.  Segja má að þeir allir séu svo að segja með sama tíma í hraðaþraut, aðeins sekúntur eru að skilja þá að.  Það er því ljóst að keppnin verður geysilega spennandi og skemmtileg.

 

Þakið á eftir að nötra á Laugardalshöllinni af spenningi stuðningsmanna og áhorfenda á keppninni.    Öll íþróttahús þar sem undankeppnir hafa verið haldnar hafa verið full út úr dyrum af öflugum stuðningsmönnum sem eru orðnir stór partur af keppninni.    Við efumst ekkert um að grunnskólar landsins munu fjölmenna í Laugardalshöll annað kvöld."

-----------------

Áhugaverðir punktar frá Skólahreysti                             Úrslit 2009

  

110 skólar – 660 keppendur -  12.000 áhorfendur – 30%uppsafnað áhorf í TV á viku 

 

Áhuginn hefur aukist jafnt og þétt.  Fámennir skólar fá lánaða nemendur úr nálægum skólum til að geta keppt.

 

Armbeygjur og kaðlar hafa öðlast nýtt hlutverk.  

 Kaðlarnir hafa í fjölda ára nær einvörðungu verið notaðir til að sveifla sér í og róla og krakkarnir kunnu ekki að klifra upp kaðal.   Þetta hefur breyst síðan Skólahreysti byrjaði.  Nú vilja allir krakkar læra að klifra í kaðli og komast upp hann eins og í Skólahreysti. 

Svo þegar það voru þrektímar og það átti að taka armbeygjur þá var það ekki spennandi en núna hafa þær öðlast nýtt gildi.  Það er tilgangur með því að fara í þær.   Nú hafa krakkarnir viðmið úr Skólahreysti og keppast við að ná þeim. 

 

Áhugi einnar stúlku til að ná góðum árangri í armbeygjum var svo mikill   að hún var farin að koma inn á kennarastofu í frímínútum til að æfa sig þar með íþróttakennaranum.  Er hún mætti til keppni sló þessi stúlka þáverandi íslandsmet í armbeygjum.

 

Einn lítill skóli af landsbyggðinni  mætti með lið fyrir þremur árum.  Þetta voru allt nemendur úr 8.bekk.  Þeirra lið endaði mjög neðarlega.  Þau fengu þó mikinn áhuga á því að gera betur.  Þau komu öll aftur að ári, þá komin í 9.bekk og enduðu þá á palli eða í 3.sæti – frábær árangur og miklar framfarir frá fyrra ári.   Í ár kom liðið í 3.skiptið.  Krakkarnir komnir í 10.bekk og orðnir þaulæfðir og reyndir.  Þau sigruðu í ár og komust í úrslit.  Verðskulduðu það heldur betur eftir að hafa lagt svo mikla vinnu í þetta og fyrir allan áhugann. 

 

Krakkarnir koma úr öllum íþróttagreinum í Skólahreysti  og sumir eru ekki að æfa neina íþrótt – eru bara í íþróttatímum í skólanum.   Það er engin staðalímynd um það hvernig sigurvegari í Skólahreysti lítur út.   Geta verið minnstu krakkarnir í skólanum og einnig þau hæstu og allt þar á milli. 

 

Allir reyna að gera sitt besta og stærsti sigurinn er að koma og taka þátt í keppninni.  Það  þarf hugrekki til þess að vera í forsvari fyrir sinn skóla. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.