Gyða Árnadóttir: Syng á hverjum einasta degi

Gyða Árnadóttir verður fulltrúi Austurlands í Söngvakeppni framhaldsskólanna á morgun en hún keppir fyrir hönd Menntaskólans á Egilsstöðum. Hún sigraði forkeppni skólans með tökulagi en hefur líka verið að gefa út eigin tónlist.

„Ég syng á hverjum einasta degi og hef gert mjög lengi. Gríp þá gjarnan í gítarinn minn þó ég kunni nú ekki mikið á hann. Ég rétt kann nógu mikið til að geta spilað aðeins undir fyrir sjálfa mig.

Ég tek daglega í hann í herberginu mínu og syng þá helst mín eigin lög. Ég er líka töluvert að semja lög og texta og gæti tiltölulega auðveldlega sett inn lög á heila plötu ef ég kærði mig um,“ sagði Gyða í viðtali í Austurglugganum í síðustu viku.

Nokkur laga hennar hafa farið inn á Spotify sem Schdoobler. Hún segist annars mest lög eftir hljómsveitina They Might be Giants sem faðir hennar haldi upp á. Eins hafi hann smitað hana af áhuga á Ljótu hálfvitunum.

„Ég nánast ólst upp við tónlistina þeirra og um tíma þýddi orðið tónlist fyrir mig að heyra í því bandi. Sérstaklega lærði ég lagið Bjór, meiri bjór mjög snemma og söng það lengi fyrir mig og mína.“

Gyða hefur tvisvar tekið þátt í tónlistarkeppninni Upptaktinum þar sem lag eftir hana komst í úrslit í seinna skiptið. Hún reyndi fyrir sér í Músiktilraunum nýverið en komst ekki áfram. Á morgun tekur hún síðan þátt í Söngvakeppninni sem haldin verður í Kaplakrika.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.